Volquart Boon-strönd

Volquart Boon-strönd (líka ritað Volquaart Boon) er um 115 km löng strandlengja milli Brewster-höfða og Stevenson-höfða sunnan megin í Scoresby-sundi. Ströndin einkennist af bröttum fjöllum sem eru hluti af flæðibasalti sem nær inn eftir Kristjáns 9.-landi. Ofan við fjöllin er jökull sem gengur sum staðar í sjó fram, en hefur hopað síðustu áratugi. Eina undirlendið að ráði á þessum slóðum er austast á Savojaskaga þar sem Brewster-höfði er.

Volquart Boon-strönd í fjarska.
Fjöll á Volquart Boon-strönd.

Fjöllin á Volquart Boon-strönd eru milli 1000 og 1700 metrar á hæð og dýpið við ströndina er 5-600 metrar. Áberandi tindar eru til dæmis Einhyrningurinn (1730 m), Broddgölturinn (1730 m), Nálapúðinn (1713 m), Píramídinn (1701 m), Ísjómfrúin (1636 m), Sfinxinn (1268 m) og Gaflinn (1150 m).[1] Þar eru stór fuglabjörg og ein mikilvægasta varpstöð haftyrðils á alþjóðavísu. Árið 1985 voru taldir þar tíu milljón haftyrðlar.[2]

Ströndin fékk þetta nafn árið 1933 til að minnast þess þegar danska hvalveiðimanninn Volquart Boon rak inn í Scoresby-sund á skipi sínu árið 1761. Nokkur af fjöllum Volquart Boon-strandar voru fyrst klifin af hópi ítalskra fjallaklifrara undir forystu Leonardo Bonzi árið 1934. Þeir hugðust reyna við Watkins-fjöll, en urðu frá að hverfa vegna íss við ströndina og klifu því fjöllin í Scoresby-sundi í staðinn. Sum örnefni sem þeir gáfu fjöllum og jöklum þar eru enn í notkun. Meðal þeirra eru Mílanójökull, Rómarjökull og Savojaskagi.

Tilvísanir breyta

  1. Higgins, A. K. (2010). „Exploration history and place names of northern East Greenland“. GEUS Bulletin. 21.
  2. Kampp, K., Meltofte, H. A. N. S., & Mortensen, C. E. (1987). „Population size of the little auk Alle alle in East Greenland“. Dansk Ornithologisk Forenings Tidsskrift. 81: 129–136.