Viðskiptaleynd
Viðskiptaleynd eru upplýsingar sem ekki eru á allra vitorði eða auðfundnar sem fyrirtæki getur nýtt sér í rekstri sínum til að bæta stöðu sína gagnvart samkeppnisaðilum og viðskiptavinum. Sum staðar eru slíkar upplýsingar skilgreindar í lögum sem trúnaðarupplýsingar.
Í alþjóðlegum hugverkarétti nýtur viðskiptaleynd verndar sem hugverk og fyrirtæki mega setja inn í samninga við starfsmenn sína ákvæði um bann við samkeppni og bann við að láta af hendi upplýsingar er varða fyrirtækið (innan þeirra marka sem atvinnuréttur og samningsréttur leyfa). Lögin um viðskiptaleynd tryggja fyrirtækjum í reynd ótakmarkaðan einkarétt á þessum upplýsingum. Viðskiptaleynd er að sumu leyti andstæðan við einkaleyfi: öfugt við einkaleyfi gildir viðskiptaleynd aðeins um óbirtar upplýsingar og öfugt við einkaleyfi er viðskiptaleynd ekki bundin tímatakmörkunum.
Það að segja frá viðskiptaleyndarmálum eða reyna að komast að slíkum leyndarmálum með iðnaðarnjósnum gefur oftast aðeins tilefni til höfðunar einkamáls þar sem viðskiptaleynd nýtur ekki sömu formlegu verndar og einkaleyfi.