Vefarinn mikli frá Kasmír

Vefarinn mikli frá Kasmír er skáldsaga eftir Halldór Laxness sem kom út árið 1927. Þema verksins er hugarvíl ungs manns og leit að sannleika, trú og ást og val hans milli ástar og trúar. Vefarinn mikli frá Kasmír er um margt nútímalegri skáldsaga en tíðkaðist á þeim tíma. Um skáldsöguna voru ritaðir tveir mjög frægir ritdómar. Annar þeirra var eftir Kristján Albertsson, hinn eftir Guðmund Finnbogason.

Ritdómar um Vefarann

breyta

Vefarinn mikli frá Kasmír hafði ólík áhrif á menn þegar hún kom út. Tveir ritdómarar eru frægastir. Kristján Albertsson skrifaði ritdóm upp á tíu blaðsíður sem birtist í tímaritinu Vöku sama ár og bókin kom út. Upphaf hans er þannig:

„Loksins, loksins tilkomumikið skáldverk, sém ris eins og hamraborg upp úr flatneskju íslenzkrar ljóða- og sagnagerðar síðustu ára! Ísland hefir eignazt nýtt stórskáld — það er blátt áfram skylda vor að viðurkenna það með fögnuði. Halldór K. Laxness hefir ritað þessa sögu á 24. aldursári sínu. Ég efast um að það komi fyrir einu sinni á aldarfjórðungi að skáld á þeim aldri semji jafn snjallt verk og þessi saga hans er. A 64. gráðu norðlægrar breiddar hefir það aldrei fyr gerzt.“[1]

Þó er dómur Kristjáns ekki allur á eina lund og segir hann verkið einnig vera "ekkert meistaraverk", "sumstaðar tilgerðarlegt, falskt, forskrúfað, líkingar bragðlausar eða ófagrar" en eftir stendur að: "Þróun tímaborins íslenzks sögustíls tekur hálfrar aldar stökk með þessari bók H.K.L."

Í sama blaði var ritdómur eftir Guðmund Finnbogasson, sem var öllu styttri, og hljómar þannig:

Vélstrokkað tilberasmjör. G. F.“[2]

Tilvísanir

breyta
  1. „Vefarinn mikli frá Kasmír. Tveir ritdómar. I.“ Vaka, 3. tbl. 1927, bls. 316.
  2. „Vefarinn mikli frá Kasmír. Tveir ritdómar. II.“ Vaka, 3. tbl. 1927, bls. 316