Valentínusardagurinn

(Endurbeint frá Valentínsdagur)

Valentínusardagurinn, einnig nefndur Valentínsdagur, er dagur helgaður ástinni sem haldinn er hátíðlegur á messudegi heilags Valentínusar 14. febrúar ár hvert. Dagurinn á uppruna sinn í Evrópu á 14. öld. Meðal þess sem er hefðbundið að gera þennan dag er að senda sínum heittelskaða/sinni heittelskuðu gjafir á borð við blóm og konfekt og láta valentínusar kort fylgja með. Þessar hefðir eiga uppruna sinn í Bretlandi, Frakklandi og Bandaríkjunum en í öðrum löndum gilda aðrar hefðir og sums staðar er dagurinn helgaður vináttu í stað ástar. Í löndum þar sem ekki er löng hefð fyrir því að halda Valentínusardaginn hátíðlegan hafa bandarískir siðir gjarnan fylgt þegar venjan er tekin upp.

Valentínusarkort frá því í kringum 1910
Heilagur Valentínus frá Terni fylgist með byggingu kirkju sinnar í Terni, úr 14. aldar frönsku handriti. (Bibliothèque nationale, Mss fr. 185)

Heilagur Valentínus

breyta

Ekki er vitað nákvæmlega hver Heilagur Valentínus var. Þetta er nafn yfir tvo, eða jafnvel þrjá, píslarvotta í sögu kirkjunnar. Annar var kristinn rómverskur prestur og læknir sem varð fyrir ofsóknum Kládíusar II Rómarkeisara, gegn kristnum mönnum. Hinn var biskupinn af Terni á Ítalíu. Mögulegt er að sögurnar af þessum tveimur mönnum eigi uppruna sinn í einum og sama atburðinum en hafi brenglast í gegnum tíðina. Um þriðja manninn er lítið vitað annað en að hann á að hafa dáið í Afríku.

Heimildir eru óljósar og ekki hægt að segja nákvæmlega til um hvenær Valentínus dó, hvort sem hann var einn maður, tveir eða þrír. En sennilegt tímabil er valdatími fyrrnefnds Kládíusar II, 268 — 270 eftir Krist.

Valentínusardagurinn á Íslandi

breyta

Sumir halda upp á Valentínusardaginn hér á landi en ekki er vitað hvenær það var fyrst gert. Elsta heimildin er úr Morgunblaðinu frá 1958:

...hér á landi fer minna fyrir deginum. Þó hafa blómaverzlanir í Reykjavík til sölu litla blómvendi, sem hnýttir hafa verið í tilefni dagsins.[1]

Einn siður tengdur þessum degi hefur því verið komin til landsins um miðja 20. öld en smámsaman hefur hann náð meiri fótfestu þótt ekki sé mikið tilstand á þessum degi hér á landi.

Tenglar

breyta
  • „Hvenær dó heilagur Valentínus? Hverrar trúar var hann?“. Vísindavefurinn. (Skoðað 14.2.2011)