Valbrá (nevus flammeus) er rauður eða rauðblár fæðingarblettur sem er algengastur í andliti en getur verið hvar sem er á líkamanum og verið mjög stór.

Mikhail Gorbachev, fyrrverandi leiðtogi Sovétríkjanna, er með áberandi valbrá ofarlega á enninu.

Um þrjú börn af þúsundi fæðast með valbrá. Hún getur verið til mikilla lýta og valdið fólki vanlíðan og vandamálum. Valbrá hverfur yfirleitt ekki eða lýsist með aldrinum eins og sumir aðrir fæðingarblettir; þvert á móti dökknar hún og getur jafnvel í stöku tilvikum þykknað og orðið upphleypt. Ef valbrá sem þykknar er nálægt auga eða munni getur hún valdið afmyndun á andliti.

Ástæðan fyrir myndun valbrár er sú að háræðar á ákveðnum svæðum í húðinni eru of margar og víðar og of mikið blóðflæði verður til þessara svæða svo að dökkleitur blettur myndast þar. Engin ástæða er þekkt fyrir að þetta gerist en ýmis hjátrú hefur tengst valbrá; hérlendis var sagt að hún stafaði af því að móðirin hefði á meðgöngutímanum borðað rjúpu sem valur hefði drepið en víða erlendis var því trúað að orsökin væri að móðirin hefði verið gripin ofsahræðslu þegar hún gekk með barnið eða að hún hefði horft á eldsvoða.

Ekki er hægt að fjarlægja valbrá en hægt er að gera hana minna áberandi og er það gert ýmist með skurðaðgerð, frystingu eða leysigeislum. Síðastnefnda aðferðin þykir gefa besta raun því þá eru útvíkkuðu háræðarnar brenndar burt án þess að valda skaða á húðinni. Valbráin hverfur þó sjaldnast alveg en oftast er hægt að hylja hana með andlitsfarða.

Heimildir breyta

  • „„Valbrám fækkar jafnt og þétt." Tíminn, 3. desember 1994“.
  • „„Port-Wine Stains." Á vef KidsHealth.org, skoðað 26. mars 2012“.