VELUX 5 Oceans Race
VELUX 5 Oceans Race (áður Around Alone og þar áður BOC Challenge) er einmenningssiglingakeppni umhverfis jörðina. Keppnin heitir eftir aðalstyrktaraðila hennar frá 2006, danska fyrirtækinu Velux. Keppt er í 3-5 löngum leggjum (öfugt við Vendée Globe þar sem siglt er án hlés) og heildarvegalengd keppninnar árið 2006 var 30.140 sjómílur. Keppnin er haldin á fjögurra ára fresti. Bátarnir verða að uppfylla skilyrði skútuflokkanna Open 50 eða Open 60 sem eru einbola flokkar 50 og 60 feta langra skúta.
BOC Challenge var fyrst haldin árið 1982 með styrk frá breska fyrirtækinu BOC Gases. Þetta var önnur keppnin af þessu tagi sem haldin hafði verið frá upphafi. Sú fyrsta var hin fræga Sunday Times Golden Globe Race 1968-69 þar sem aðeins einn keppandi lauk keppni.