Vökulögin
Vökulögin eru lög sem voru sett á til að bæta vinnuaðstæður íslenskra sjómanna sem unnu oft marga daga án hvíldar. Fyrsta frumvarpið var lagt fram af Jörundi Brynjólfssyni árið 1919 en því var hafnað. Jón Baldvinsson flutti nýtt frumvarp 1921 sem snerist um það sama með smávægilegum breytingum og var það samþykkt 1922. Héðinn Valdimarsson lagði til að lengja hvíldina í átta klukkustundir 1927 en það var ekki samþykkt fyrr en árið 1928. Árið 1955 voru loks samþykkt lög um 12 klukkustunda lágmarkshvíld sjómanna, eftir kjarasamninga útgerðarmanna við sjómenn.
Aðdragandi
breytaEftir aldamótin 1900 hófu Íslendingar togara- og botnvörpuveiðar. Fyrsti Íslenski togarinn var Coot, sem var keyptur árið 1905.[1] Á næstu árum tók togurum að fjölga hér á landi verulega. Mikil kappsemi fylgdi í kjölfarið þar sem að útgerðarfélög kepptu sín á milli og hásetar á togurunum kepptu sín á milli. Mjög eftirsótt var að fá pláss á togurum í byrjun 20. aldar. Vinnutíminn var misnotaður af atvinnuveitendunum og voru menn látnir vinna oft í marga daga í senn.[2]
Þessu lífi var lýst í blaðagrein, undir dulnefni, árið 1913:
Ef lítið fiskast geta menn oft haft nægan svefn, en þó allt í smáskömmtum, t.d. oft ekki meira en ein klukkustund í einu, og þykir það gott. En svo fer að fiskast meira of þá fer nú að versna í því. Nú líður fyrsti sólarhringurinn og svo annar, að ekki fær maður að sofna, en á þriðja sólarhringnum eru menn oftast látnir sofna eitthvað lítið. Ég veit að fólki úr landi myndi oft bregða í brún að sjá þessa menn dragast áfram í fiskkösinni eins og þeir væru dauðadrukknir, og undir eins og þeir setjast niður að borða eru sumir steinsofnaðir með nefið ofan í disknum sínum.[3]
Fyrsta frumvarp
breytaJörundur Brynjólfsson lagði fram fyrsta frumvarp til Vökulaganna 22. júlí árið 1919.[4] Frumvarpið var flutt að ósk fjölmargra háseta á íslenskum togurum. Í frumvarpinu er því lýst hve mannskemmandi það sé að vinna svo lengi í senn og að menn geti varla búist við lengri starfsaldri en fimm til átta ár. Einnig var fjallað um að útgerðarfélögin myndu ekki tapa neinu fé á því að veita hásetum sínum hvíldartíma, heldur myndu þeir hagnast meira með vel hvíllt fólk að starfi. Tekið var fram að hvíldartími skyldi vera minnst átta klukkutímar yfir sólarhringinn.
Í nefndaráliti minnihluta Sjávarútvegsnefndar segir Sveinn Ólafsson að nauðsyn svefns sé jafn brýn og þörfin á viðurværi.[5]
Meirihluti Sjávarútvegsnefndar samþykkti þó ekki frumvarp Jörundar um lágmarkshvíld háseta og taldi að það væri erfitt að setja slík lög á landi þar sem að veðráttan væri jafn óútreiknanleg og á Íslandi, einnig að ekki ætti að setja formönnum á fiskiskipum lög um það hvernig þeir ættu að haga veiðum sínum.[6]
Lagasetning
breytaAftur var reynt að létta líf háseta 14. mars 1921. Að þessu sinni var það Jón Baldvinsson, þingmaður Alþýðuflokksins, sem flutti frumvarpið. Í þeirri útgáfu frumvarpsins var tekið sérstaklega fram að þegar skip var við veiðar þurfti hvíldin að vera samfelld. Einnig hafði sú breyting orðið að hvíldartíminn var styttur í sex klukkustundir.[7] Þrjár breytingar voru gerðar áður en þær voru samþykktar. Fyrstu snerust um orðalag og lækkun sekta[8], önnur snerust um að bæta dagsetningum inn í 2. gr.[9] en þau þriðju um að lengja það tímabil sem nefnt var í 2. gr.[10] Áður nefnt tímabil varð ekki hluti af lögunum og áttu lögin því við allt árið. Lög um hvíldartíma háseta á íslenskum botnvörpuskipum tóku gildi 1. janúar 1922.[11]
Breyting á lögunum
breytaÁrið 1927 lagði Héðinn Valdimarsson, þingmaður Reykvíkinga, fram frumvarp til Alþingis um að lengja skyldi hvíldartíma háseta á togurum úr sex tímum á sólarhring í átta tíma. Sú tillaga var felld en samþykkt ári síðar með atkvæðum ríkisstjórnarflokkanna Alþýðuflokksins og Framsóknarflokksins. Á árunum 1942-1954 lögðu þingmenn Sósíalistaflokksins fram tillögur um að lengja lágmarkshvíldartíma sjómanna í 12 tíma á togurum án þess þó að þau yrðu samþykkt. Rök þeirra sem voru á móti lengingunni voru að útgerðir gætu ekki staðið undir þeim aukna kostnaði ásamt því að vinnutími á þurru landi væri einungis átta tímar. Árið 1947 sömdu útgerðarmenn við sjómenn um 12 klukkustunda hvíld á saltfiskveiðum og árið 1949 við sjómenn á ísfiskveiðum. Í kjölfar þess var frumvarp um 12 klukkustunda hvíld endurflutt á Alþingi árið 1955. Þá var það samþykkt samhljóða á þingingu.[12][13]
Heimildir
breyta- ↑ Gunnar Karlsson (Apríl 2017). „Hvað voru vökulögin og af hverju voru þau sett?“. Vísindavefurinn.
- ↑ Gunnar Karlsson; Þóra Kristjánsdóttir (2009). Saga Íslands X. Hið íslenska bókmenntafélag. bls. 94-95.
- ↑ Gunnar Karlsson; Þóra Kristjánsdóttir (2009). Saga Íslands X. Hið íslenska bókmenntafélag. bls. 95.
- ↑ Jörundur Brynjólfsson (Júlí 1919). „Frumvarp til laga um hvíldartíma háseta á íslenskum botnvörpuskipum“ (PDF). Alþingi.
- ↑ Sveinn Ólafsson (Ágúst 1919). „Álit minnihluta Sjávarútvegsnefndar á frumvarpi um hvíldartíma sjómanna“ (PDF). Alþingi.
- ↑ Björn R. Stefánsson (Ágúst 1919). „Álit meirihluta Sjávarútvegsnefndar á frumvarpi um hvíldartíma sjómanna“ (PDF). Alþingi.
- ↑ Jón Baldvinsson (Mars 1921). „Tillaga um hvíldartíma háseta á íslenskum botnvörpuskipum“ (PDF). Alþingi.
- ↑ M.J. Kristjánsson; Jón Baldvinsson; Þorl. Guðmundsson (Apríl 1921). „Nefndarálit meirihluta Sjávarútvegsnefndar á hvíldartíma háseta á íslenskum botnvörpuskipum“ (PDF). Alþingi.
- ↑ Jón A. Jónsson; Hákon J. Kristófersson (Apríl 1921). „Breytingartillaga við frumvarp til laga um hvíldartíma háseta á íslenskum botnvörpuskipum“ (PDF). Alþingi.
- ↑ Hákon J. Kristófersson; Jón A. Jónsson (Apríl 1921). „Breytingartillaga við brtt. á þskj. 403 (Hvíldartimi háseta)“ (PDF). Alþingi.
- ↑ Höfund vantar (Maí 1921). „Lög um hvíldartíma hásela á íslenskum botnvörpuskipum“ (PDF). Alþingi.
- ↑ Einar Laxness; Pétur Hrafn Árnason (2015). Íslandssaga A-Ö. Vaka-Helgafell. bls. 563.
- ↑ „Hvað voru vökulögin og af hverju voru þau sett?“. Vísindavefurinn. Sótt 10 febrúar 2025.