Theodosius 2. (401 – 450) var keisari Austrómverska ríkisins á árunum 402 – 450.

Theodosius 2.
Austrómverskur keisari
Valdatími 402 – 450
með Arcadiusi (402 – 408)

Fæddur:

10. apríl 401

Dáinn:

28. júlí 450
Forveri Arcadius
Eftirmaður Marcianus
Maki/makar Aelia Eudocia
Börn Licinia Eudoxia
Faðir Arcadius
Móðir Aelia Eudoxia
Keisaranafn Flavius Theodosius Augustus
Ætt Theodosíska ættin

Theodosius var sonur Arcadiusar keisara og Aeliu Eudoxiu sem var af frankískum ættum. Þegar Theodosius var aðeins tæplega eins árs gamall gerði faðir hans hann að meðkeisara sínum (augustus) og var hann yngstur til að hljóta þann titil í sögu Rómversku- og Austrómversku keisaradæmanna. Árið 408 lést Arcadius og Theodosius varð þá einn keisari yfir Austrómverska ríkinu, aðeins sjö ára gamall. Til að byrja með var ríkinu stjórnað af Anthemiusi sem var yfirmaður hersins. Að hans frumkvæði var nýr varnarmúr, Theodosiusarmúrinn, byggður til að verja Konstantínópel, höfuðborg austrómverska ríkisins. Þessi múr átti eftir að nýtast Austrómverjum við að verjast fjölmörgum umsátrum um borgina í langri sögu ríkisins. Árið 414 tók Pulcheria, eldri systir Theodosiusar, titilinn augusta og varð þá forráðamaður Theodosiusar og þar með valdamesta manneskjan í ríkinu. Árið 416 varð Theodosius svo opinberlega fullorðinn og tók við stjórn ríkisins en Pulcheria var þó áfram valdamikil.

Theodosius lét taka saman lög og tilskipanir rómarkeisara síðan í stjórnartíð Konstantínusar mikla og setja saman í lagabálk, Codex Theodosianus. Þessi bálkur varð svo grunnurinn að lagabálki Justinianusar rúmri öld síðar. Einnig stofnaði Theodosius háskólann í Konstantínópel, sem var starfræktur fram á 15. öld.

Theodosius barðist við Sassanída í Persíu á árunum 421 til 422 en samdi um frið við þá þegar Húnar fóru að valda usla á Balkanskaganum. Theodosius samdi einnig fljótlega um frið við Húnana en þeir sneru aftur um áratug síðar undir stjórn Atla Húnakonungs. Atli leiddi Húna til sigurs yfir Austrómverjum í nokkrum orrustum og olli miklu tjóni og eyðileggingu á Balkanskaganum. Atli leiddi her sinn að veggjum Konstantínópel en reyndi þó ekki að hertaka borgina. Árið 448 samdi Theodosius um frið við Atla og samþykkti að borga honum árlega mikið magn af gulli. Eftir þetta sneri Atli sér að Vestrómverska ríkinu.

Árið 450 lést Theodosius í slysi þegar hann var á útreiðum. Pulcheria, systir hans, tók tímabundið við stjórn ríkisins en margir, meðal annars rómverska öldungaráðið, vildu ekki samþykkja að kona myndi stjórna ríkinu og því giftist Pulcheria herforingjanum Marcianusi, nokkrum mánuðum síðar, sem þá varð keisari.


Fyrirrennari:
Arcadius
Keisari Austrómaverska ríkisins
(402 – 450)
Eftirmaður:
Marcianus