Taugakröm
Taugakröm er hörgulsjúkdómur þar sem skortur er á B1-vítamíni. Helstu einkenni eru vigtartap, vöðvaverkir (einkum í útlimum), bjúgur, krampar, lömun og hrörnun tauga og vöðva. Minnisglöp í formi Wernicke-Korsakoff heilkennis getur orðið. Sjúkdómurinn getur valdið skyndilegum dauða vegna hjartalömunar. Meðferð er inntaka vítamínsins í gegnum munn eða sprautu.
Sjúkdómurinn var áður algengur í Austurlöndum fjær þar sem lítið var af B1 í hrísgrjónum. Nú er hann víða í Afríku sunnan Sahara. Á Vesturlöndum kemur taugakröm oftast fyrir sökum ofneyslu áfengis. Alþjóðlega heitið er beriberi.