Sverð í kletti (norska: Sverd i fjell) er minnismerki innst í Hafursfirði, skammt sunnan við Stafangur í Vestur Noregi. Verkið er til minningar um Hafursfjarðarorustu árið 872, þegar Haraldur hárfagri sameinaði Noreg í eitt ríki.

Minnismerkið.

Verkið er eftir einn kunnasta listamann Noregs, Fritz Røed frá Bryne, og var afhjúpað af Ólafi Noregskonungi 7. maí 1983. Þetta eru þrjú stór sverð sem standa upp úr kletti við Mylluvík (Møllebukta) innarlega í Hafursfirði. Sverðin eru um 9 m há og eru eftirlíkingar sverða sem fundist hafa í Noregi.

Stærsta sverðið táknar sigurvegarann, Harald konung hárfagra, minni sverðin tvö tákna smákóngana sem biðu ósigur í orustunni. Minnismerkið er einnig friðartákn: Sverðin eru föst í kletti, sem gefur til kynna að þau verði aldrei notuð framar. Sparisjóður Rogalands gaf verkið.

Heimild

breyta