Sænsk-norska sambandið

(Endurbeint frá Svíþjóð-Noregur)

Sænsk-norska sambandið, formlega sameinuð konungsríki Noregs og Svíþjóðar, var ríki sem var myndað eftir að Noregur og Svíþjóð gengu í konungssamband árið 1814. Einu sameiginlegu stofnanir ríkjanna voru konungur og utanríkisþjónustan en þau voru að öllu öðru leyti tvö aðskilin ríki með sín eigin þing og ríkisstjórnir. Þegar leið á 19. öldina óx verslunarfloti Norðmanna sem leiddi til aukinnar kröfu um sérstaka utanríkisþjónustu. Sænski konungurinn hafði auk þess neitunarvald sem leiddi til nokkurra stjórnarkreppa í Noregi. Norðmenn brugðust við með því að styrkja norska herinn. Árið 1905 samþykkti norska stórþingið lög um sérstaka norska ræðismenn en Óskar 2. konungur beitti neitunarvaldi gegn lögunum. Norska ríkisstjórnin sagði þá af sér en konungur neitaði að samþykkja uppsögnina þar sem ekki væri hægt að mynda aðra stjórn. Stórþingið lýsti því þá yfir að Óskar hefði fyrirgert konungstign sinni í Noregi með því að neita að uppfylla skyldur sínar og mynda nýja stjórn. Í þjóðaratkvæðagreiðslu sem boðað var til í ágúst kaus yfirgnæfandi meirihluti Norðmanna aðskilnað frá Svíþjóð. Þingin tvö samþykktu upplausn sambandsins 16. október og Óskar lagði í kjölfarið niður tilkall sitt til norsku krúnunnar fyrir sína hönd og afkomenda sinna.

Sambandsfáninn
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.