Ígulbandormur

(Endurbeint frá Sullaveikibandormur)

Ígulbandormur (fræðiheiti: Echinococcus granulosus) er 2–7 mm langur bandormur. Aðalhýslar eru hundar og önnur rándýr. Algengir millihýslar eru villt og tamin hófdýr, eins og t.d. sauðfé.[1]

Ígulbandormur
Fullorðinn ígulbandormur (E. granulosus)
Fullorðinn ígulbandormur (E. granulosus)
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Flatormar (Platyhelminthes)
Flokkur: Cestoda
Ættbálkur: Cyclophyllidea
Ætt: Taeniidae
Ættkvísl: Echinococcus
Tegund:
E. granulosus

Tvínefni
Echinococcus granulosus
Batsch, 1786

Lífsferill ígulbandorms og ígulsulls

breyta

Ígulbandormur er kallaður ígulsullur þegar hann er á lirfustigi. Ígulbandormur lifir fullorðinn í ýmsum dýrategundum af hundaætt en á lirfustiginu sem ígulsullur í ýmsum grasbítum og alætum. Á Íslandi voru ígulsullir einkum í sauðfé, nautgripum og fólki og ígulbandormur í hundum. Smitleiðin var þannig að grasbítar smituðust þegar bandormsegg bárust með hundaskít í gróður og með gróðri í meltingarveg þeirra. Menn smituðust þegar egg úr hundaskít bárust í meltingarfæri þeirra. Hundar smituðust aðallega af því að éta innyfli sullaveiks sauðfjár og nautgripa sem slátrað var heima á bæjum.

Ígulbandormur er yfirleitt 2–7 mm að lengd með þremur ólíkum liðum. Fremst er haus með krókum og fjórum sogskálum. Sogskálarnar halda orminum föstum í þörmum hundsins. Næst er liður með þroskuðum kynfærum og fyrir aftan liður með fullþroskuðum eggjum. Ígulbandormar geta framleitt egg einum til tveimur mánuðum eftir að hundur hefur étið sull úr sauðfé. Líftími ígulbandorms í hundi er um sex mánuðir.

Ígulsullur er vökvafyllt blaðra. Sullurinn þroskast úr fósturlirfu bandormseggsins og lirfan brýtur sér leið inn í þarmavegginn og berst með blóðbraut til lifrar og stöðvast oft þar og myndar sull. Lirfan getur þó borist áfram til lungna og myndar lungnasull ef hún stöðvast þar. Ef lirfan stöðvast ekki í lungum getur hún borist um líkamann og farið í heila, augu, milta, nýru, hjarta, vöðva eða bein. Í kringum sullinn er tvískipt blaðra sem er að innanverðu þakin himnu með útvöxtum á stærð við títuprjónshausa. Þessir sullhausar geta þroskast í blöðrur með nokkrum tugum sullhausa sem kallast sullungar. Hver sullhaus hefur fjórar sogskálar og krókakrans og getur orðið að bandormi ef hann kemst í þarma hunds. Hýsill sullsins myndar bandvef utan um blöðruna. Sullirnir eru mjúkir í byrjun og dúa við snertingu en líkami hýsilins einangrar sullinn smám saman með að setja kalk í hjúpinn. Það verður til þess að sullurinn hættir að vaxa þó að hann geti lifað mörg ár inni í kalkhjúpnum. [2]

Sjá einnig

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Ekinokokkose i Patienthåndbogen på sundhed.dk
  2. Karl Skírnisson. “Bandormafána landspendýra á Íslandi að fornu og nýju.” Náttúrufræðingurinn : vol. 87, no. (3-4), 2017, pp. 116–131.

Tenglar

breyta
   Þessi líffræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.