Stríðið um lindirnar sjö
Stríðið um lindirnar sjö (franska: La Guerre des sept fontaines) er tíunda bókin í sagnaflokknum um Hinrik og Hagbarð eftir belgíska myndasöguhöfundinn Peyo. Sagan birtist í myndasögublaðinu Sval á árinu 1959 en kom út á bókarformi árið 1961.
Söguþráður
breytaHinrik og Hagbarður leita skjóls í yfirgefnum kastala, en uppgötva að þar býr vinalegur draugur. Draugurinn reynist vera fyrrum borgarmeistarinn Aðalgeir Eydalín, sem rekur sögu sína. Hann hafði verið vinsæll stjórnandi en hneigður til víndrykkju. Galdranorn hafði veitt honum þá ósk að vatnsból borgarinnar fylltust af víni, sem endaði með ósköpum. Nornin fékkst ekki til að breyta galdrinum, en þurrkaði þess í stað vatnslindir borgarinnar algjörlega með þeim afleiðingum að íbúarnir flúðu og Aðalgeir varð dæmdur til að ganga aftur uns lögmætur afkomandi hans byggði borgina að nýju.
Hinrik og Hagbarður ákveða að aðstoða drauginn ógæfusama og hafa upp á nálægri galdranorn. Sú reynist ekki geta hjálpað þeim, en meðan á heimsókninni stendur kemur Yfirstrumpur í heimsókn og býðst til að hjálpa. Strumparnir kenna félögunum að útbúa vatnskvist, sem tekst að draga fram vatn að nýju í vatnslindunum þurru. Þar með er fyrri hluti verkefnis þeirra Hinriks og Hagbarðs leystur, en enn er þó eftir að hafa upp á réttum afkomanda.
Þegar fregnir berast af því að vatn sé komið á ný í lindirnar sjö þyrpast að menn sem gera tilkall til að vera afkomendur Aðalgeirs Eydalíns. Flestir reynast þeir vera svikahrappar, sem varpa Hinrik og Hagbarði í dýflissu. Þeim tekst þó að sleppa, hafa upp á réttmætum erfingja og hrekja svikarana á braut. Aðalgeir gleðst innilega og hverfur í eitt skipti fyrir öll.
Íslensk útgáfa
breytaStríðið um lindirnar sjö kom út hjá bókaútgáfunni Iðunni árið 1983 í þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar. Hún var þriðja Hinriks og Hagbarðs-bókin sem kom út á íslensku.