Steinvör Sighvatsdóttir

Steinvör Sighvatsdóttir (d. 17. október 1271) var íslensk kona á Sturlungaöld. Hún var af ætt Sturlunga, dóttir Sighvatar Sturlusonar og Halldóru Tumadóttur. Um 1230 giftist hún Hálfdani, syni Sæmundar Jónssonar í Odda, og bjuggu þau á Keldum á Rangárvöllum. Hálfdan blandaði sér lítið í deilur samtíðarmanna sinna en Steinvör var ekki jafnafskiptalítil, enda var fjölskylda hennar jafnan í miðdepli átakanna og faðir hennar og sex bræður féllu fyrir vopnavaldi. Steinvör virðist hafa verið mikilsvirt af samtíðarmönnum og haft meiri áhrif en gerðist almennt um konur á þeim tíma. Þegar Þórður kakali bróðir hennar átti í deilum við sunnlenska bændur haustið 1242 úrskurðaði hún í málum þeirra ásamt Sigvarði Skálholtsbiskupi og var ákveðið að ef þau yrðu ekki sammála skyldi Steinvör ráða.

Þegar Þórður dó 1256 var Steinvör eini erfingi hans því að börn hans voru öll óskilgetin. Hún setti Þorvarð Þórarinsson, mann Solveigar dóttur sinnar, til að annast ríki hans í Eyjafirði en hann lenti í deilum við Þorgils skarða, sem taldi sig eiga tilkall til valda þar, og lauk þeim með því að Þorvarður vó Þorgils en hraktist síðan burt úr Eyjafirði. Steinvör og Hálfdan áttu líka þrjá syni, Loft (um 1233 - 19. júní 1312), riddara á Grund í Eyjafirði, Sighvat, riddara á Keldum, og Sturlu.

Ytri tenglar

breyta
  • „Steinvör Sighvatsdóttir“. Skáld.is. Sótt 14. febrúar 2023.