Smjattpattar
Smjattpattar voru persónur í barnabókum eftir breska rithöfundinn Denis Bond (sem notaði höfundarnafnið Giles Reed) myndskreyttar af Angelu Mitson. Smjattpattar voru persónugerðir ávextir og grænmeti sem báru heiti eins og Lúlli laukur, Pála púrra, Kalli kartafla, Mangi maískólfur o.s.frv. Fyrstu bækurnar komu út árið 1978. 1980 voru gerðir brúðuþættir með persónunum fyrir ITC Entertainment. Um miðjan 9. áratuginn eyðilögðust allar upprunalegu myndskreytingarnar í eldsvoða.
Á Íslandi komu bækurnar út hjá Bókaútgáfunni Vöku 1982 til 1984 í þýðingu Þrándar Thoroddsen. Árið 1983 voru brúðumyndirnar sýndar í Stundinni okkar og sama ár kom út samnefnd íslensk hljómplata með „Smjattpattalögum“.