Skautahöllin á Akureyri

Skautahöllin á Akureyri er íþróttamannvirki Skautafélags Akureyrar sem er félag um eflingu skautaíþróttarinnar. Húsið er til æfinga skautaíþróttafólks, íshokkí, listdans á skautum og krullu. Þá er húsið opið til skautaiðkunar fyrir almenning.

Mynd af Skautahöllinni á Akureyri sem nýtur vinsælda meðal ungs fólks.
Skautahöllin á Akureyri nýtur vinsælda meðal ungs fólks.

Starfssemi

breyta

Í Skautahöllinni fer fram margvísleg starfsemi. Æfingar skautadeilda fara fram í húsinu alla daga vikunnar og hokkíleikir, krullu- og listhlaupamót eru haldin flestar helgar að vetrinum. Utan hefðbundinna æfingartíma er hægt að fá skautasvellið leigt til hópa og fyrirtækja. Hægt er að fá leigða skauta og hjálma til afnota og skerpingarþjónustu. Í boði eru sérútbúnir sleðar sem henta hreyfihömluðum. Sjoppa er rekin á almenningstímum og viðburðum en í henni fást meðal annars hokkívörur og barnaskautar.[1]

Þótt skautaíþróttin sé fyrir alla aldurshópa, eru langflestir á svellinu af yngri kynslóðinni, 20 ára og yngri. Mest er aðsóknin um helgar. Í boði hefur verið svokallað „skautadiskó", þar sem tónlistin fær að njóta sín og diskóljós ljóma. Skólahópar frá Akureyri og sveitarfélögum á Norðurlandi hafa nýtt aðstöðuna.

Utan opnunartíma fyrir almenning er höllin nýtt til æfinga í íshokkíi, listdansi og krullu. Um 150 manns æfa íshokkí og álíka margir iðkendur eru í listdansi á skautum. Ennfremur eru um 20 manns sem stunda reglulegar æfingar í krullu.[2]

Skautafélagið rekur húsið með fjárhagsstuðningi bæjarfélagsins.

Skautahöllin á Akureyri var vígð á Vetraríþróttahátíð ÍSÍ laugardaginn 25. mars árið 2000, en fyrsta skóflustunga að henni var tekin 22. júní 1999. Húsið var formlega vígt af Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands. Heildarstærð Skautahallarinnar er um 30 þúsund rúmmetrar, flatarmál 3.232 fermetrar, og mesta hæð hússins er 13,05 metrar. Áhorfendasvæði er ætlað 600 manns.[3]

Með opnun Skautahallarinnar hafði langþráður draumur skautafólks á Akureyri rætst en skautafélag hefur verið á Akureyri allt frá 1. janúar 1937.[4]

Tenglar

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Halló Akureyri! Akureyrarstofa. „Skautahöllin á Akureyri“. Halló Akureyri! Akureyrarstofa. Sótt 8. mars 2021.
  2. Morgunblaðið (20. febrúar 2002). „Morgunblaðið - Norður í vetrarævintýrið!“. Árvakur. Sótt 8. mars 2021.
  3. Geir A. Guðsteinsson (25. febrúar 2000). „Fjölskylduvæn vetrarhátíð“. Dagur - 39. tölublað - Blað 1. Sótt 8. mars 2021.
  4. Skautafélag Akureyrar. „Um félagið“. Skautafélag Akureyrar. Sótt 8. mars 2021.