Skansinn (Vestmannaeyjum)

Skansinn var virki sem reist var í Vestmannaeyjum að boði konungs seint á 16. öld til þess að verja eyjarnar og þó einkum eignir konungs þar fyrir enskum kaupmönnum og ræningjum. Skansinn fór að hluta undir hraun í eldgosinu 1973.

Hluti af Skansanum sem fór ekki undir hraun.

Friðrik 2. Danakonungur skrifaði bréf 18. apríl 1586 þar sem hann fól Hans Holst skipstjóra að reisa virki á hentugum stað við höfnina í Vestmannaeyjum. Af reikningum umboðsmanns konungs það ár má sjá að þegar hefur verið hafist handa við verkið og „skandters“ reistir en ekki er vel ljóst hvernig mannvirki þetta voru. Þau hafa líklega verið eyðilögð í Tyrkjaráninu 1627 eða ef til vill verið í svo lélegu ástandi að þau hefðu verið gagnslaus ef gripið hefði verið til varna, að minnsta kosti var Skansinn endurbyggður á árunum 1630-1637 að undirlagi Jens Hasselberg, sem þá var umboðsmaður konungs í Vestmannaeyjum og verslunarstjóri þar. Hann lét jafnframt endurbyggja verslunarhús og íbúðarhús Dana, sem ræningjarnir höfðu brennt, og víggirða þau, en þau voru inni í Skansinum. Skansinn var öflugur grjótveggur, um tveggja metra hár og fimm metra þykkur, og var svæðið innan hans um 32 metrar á lengd og 15 metrar á breidd. Þessi mannvirki hafa þótt nokkuð vegleg og séra Jón Daðason (d. 1676) sagði hann vera mesta prýði Sunnlendingafjórðungs.

Á hornum Skansins voru fallbyssur og þar átti jafnan að vera maður sem kunni að fara með fallbyssur og hergögn. Um 1640 gegndi Jón Ólafsson Indíafari því embætti um tíma og segir hann í ævisögu sinni að hlutverk hans hafi verið að gæta hergagnanna og æfa eyjarskeggja í vopnaburði vikulega. Embætti þetta hélst lengi fram eftir 17. öld en í lýsingu Vestmannaeyja frá 1749 segir að á Skansinum séu gömul hergögn sem nú séu orðin algjörlega ónothæf.

Heimildir

breyta
  • „„Söguleg lýsing á Vestmannaeyjum". Blanda, 19.-22. hefti, 1936“.
  • „„Skansinn í Vestmannaeyjum". Vísir, 19. ágúst 1965“.