Skógarmaður

Skógarmaður eða skóggangsmaður var sakamaður sem hafði verið dæmdur til skóggangs samkvæmt lögum íslenska þjóðveldisins. Skógarmenn voru griðlausir og í raun réttdræpir hvar sem til þeirra náðist og áttu oftast ekki annars úrkosti en að leggjast út - í Noregi í skógum en hérlendis frekar í óbyggðum. Sumir fundu sér hellisskúta eða annað afdrep nærri byggð og þá oft í nágrenni við einhverja sem voru þeim vinveittir og gátu liðsinnt þeim. Á meðal skógarmanna sem þekktir eru úr Íslendingasögum má nefna Gretti sterka, Gísla Súrsson, Hörð Grímkelsson og Þorgeir Hávarsson.