Hebreska sjálfstjórnarfylkið

fylki í Asíuhluta Rússneska sambandsríkisins

Hebreska sjálfstjórnarfylkið (á rússnesku: Еврейская автономная область), er í Rússneska sambandsríkinu og ein 83 eininga þess. Það liggur að Khabarovskfylki og Amúrfylki í austurhluta sambandsríkisins og við landamæri Heilongjiang-héraðs í Kína. Fylkið er um 36.000 ferkílómetrar.

Kortið sýnir legu hebreska sjálfstjórnarfylkisins innan hins víðfeðma rússneska sambandsríkis

Árið 2010 voru íbúar um 176.558, af ýmsu þjóðerni, en langstærstur hluti þeirra Rússar eða 93%. Önnur þjóðarbrot eru: Úkraínumenn 3% og Gyðingar um 1%. Höfuðstaður fylkisins er Birobidzhan með um 75 þúsund íbúa.

Landsvæðið var byggt upp þegar rússneska keisaradæmið skipaði Amúr-kósökkum að verja austurlandamæri Rússlands 1848. Þéttbýli jókst síðan þegar Síberíuhraðlestin til Vladivostok var lögð um svæðið.

Hebreska sjálfstjórnarfylkið var stofnað sem stjórnsýslueining innan Sovétríkjanna árið 1934 sem afleiðing af þjóðernisstefnu Jósefs Stalíns. Gyðingum var þar úthlutað landsvæði innan Sovétríkjanna til að stunda jiddíska menningararfleifð sína innan hins sósíalíska kerfis.

Árið 1939 bjuggu þar um 18.000 Gyðingar eða um 16% mannfjöldans. Hámarki náði fjöldi þeirra árið 1948 þegar þeir voru um 30.000, eða um fjórðungur íbúa svæðisins. Árið 2002 voru þar einungis 1.628 gyðingar (1% mannfjöldans), en Rússar töldu um 92,7% íbúanna.


Heimildir

breyta


Tenglar

breyta