Sigurörn er nafn á haferni sem Sigurborg Sandra Pétursdóttir (fædd 1994) frá Grundarfirði kom til hjálpar í júní 2006. Fann hún fuglinn grútarblautan og ófleygan þegar hún var í útreiðartúr á Snæfellsnesi.

Sigurörn í búri sínu í Húsdýragarðinum.

Örninn reyndist ekki hafa stélfjaðrir svo honum var komið fyrir í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Reykjavík. Þar var hann þrifinn og að honum hlúð þar til fjaðrirnar uxu aftur. Var hann farinn að fljúga aftur innan þriggja mánaða sem þótti ótrúlega stuttur tími.

Björgun fuglsins var tilefni nokkurrar fjölmiðlaumfjöllunnar og var ekki síður umfjöllun í aðdraganda þess að honum var sleppt aftur út í náttúruna 26. nóvember 2006. Var það gert á sama stað og hann fannst. Til greina kom að lóga fuglinum þegar upp kom grunur um að þrjár landnámshænur í húsdýragarðinum hefðu í sér mótefni fuglaflensu en í ljós kom að sá ótti var ástæðulaus. Öllum öðrum fuglum garðsins að undanskildum fálka var þó fargað, en sýni sem tekin voru og rannsökuð eftir það sýndu engin merki um flensu í öðrum fuglum.

Heimildir

breyta