Sörla þáttur er einn af Íslendingaþáttum og er stuttur innskotskafli í Ljósvetninga sögu. Þar segir frá kvonbænum Sörla sem var sonur Brodd-Helga Þorgilssonar, en hann er ein af aðalsögupersónunum í Vopnfirðinga sögu. Varast ber að rugla Sörla þætti við Sörla þátt eða Héðins sögu og Högna, en sá þáttur tilheyrir Fornaldarsögum Norðurlanda.

Sörli fylgdi Guðmundi ríka Eyjólfssyni á Möðruvöllum í Eyjafirði heim af þingi eitt árið en Guðmundur var vanur að taka til sín göfugra manna syni um tíma. Sörli vann fyrir hann og dvaldist á Möðruvöllum eitt ár. Þar kynntist hann Þórdísi dóttur Guðmundar og fór vel á með þeim. Guðmundi líkaði það ekki og kom Þuríði fyrir hjá Einari Þveræingi bróður sínum en Sörli hélt áfram að heimsækja hana þangað. Á þingi um sumarið kom Sörli að máli við Einar Þveræing og bað hann að biðja Guðmund um hönd Þórdísar fyrir sig. Einar gerði það en Guðmundur neitaði og bar fyrir sig orðróm sem hafði gengið um kynni þeirra Sörla og Þórdísar. Einar ráðlagði Sörla þá að fá Þórarin Nefjólfsson, góðvin Guðmundar, sem milligöngumann og tókst Þórarni að tala Guðmund til svo að hann samþykkti ráðahaginn.

Sörli og Þórdís bjuggu á Valþjófsstöðum í Fljótsdal. Þau eignuðust synina Einar og Brodda.

Þótt það sé óskylt sjálfum þættinum má nefna að Sörli kemur við Njáls sögu þegar Flosi leitar sér liðsinnis eftir brennu til þings. Hann ríður austur og norður og hittir Sörla en hann svarar svo að hann vilji áður vita hug Guðmundar ríka en þá svarar Flosi „Finn ek þat á svörum þínum at þú hefir kvánríki“ og fékk hann þar engan stuðning en þó hafði áður Hallbjörn er átti Oddnýju systur Sörla lofað honum fullum stuðningi. Svo fór enda að á þingi studdi Guðmundur Kára og Mörð Valgarðsson og þá félaga.

Tenglar

breyta
   Þessi bókmenntagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.