Runólfur Klemensson

Runólfur Klemensson, f. 1752 - d. 16. október 1811, var verslunarmaður í Reykjavík og um skeið forstjóri Innréttinganna.

Ævi og störf

breyta

Runólfur fæddist í Kerlingardal í Vestur-Skaftafellssýslu. Hann fluttist til Reykjavíkur og kvæntist þar Sigríði dóttur Sigurðar Erlendssonar bónda í Götuhúsum. Runólfur gerðist starfsmaður Sunchenberg kaupmanns, sem hafði tekið við verslunum konungsvaldsins á Íslandi og rekið í eigin nafni frá 1788.

Hann var í fyrstu verslunarþjónn en var síðar gerður að verslunarstjóra og tók um leið við forstjórastöðu í Innréttingunum. Sem yfirmaður þeirra varð Runólfur fyrsti eftirlitsmaður með störfum næturvarðar Reykjavíkurbæjar árið 1790. Næturvörðurinn eða vaktarinn gegndi jafnframt starfi slökkviliðsmanns. Hlutverk Runólfs var að gæta þess að vaktarinn sinnti skyldum sínum og fékk hann þókun fyrir.

Runólfur hafði flutt með fjölskyldu sína í forstjóraíbúð Innréttinganna í Aðalstræti 9, en varð ekki langlífur í embætti fyrir óreglu sakir. Hann fluttist þá í hús sem áður hafði hýst spunastofu félagsins og starfaði næstu árin við ýmis verslunarstörf. Árið 1810 keypti hann kotið Kirkjuból, sem síðar nefndist Lækjarkot en haustið 1811 fannst hann drukknaður í Tjörninni.

Mikill ættbogi er kominn út frá Runólfi og er ættarnafnið Klementz dregið af honum.

Tenglar

breyta