Rangláti dómarinn
Rangláti dómarinn (franska: Le Juge) eftir Maurice de Bevere og René Goscinny er 13. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1959, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Sval (f. Le Journal de Spirou) á árunum 1957-58.
Söguþráður
breytaLukku Láki tekur að sér að reka kúahjörð frá Ástarborg (e. Austin) í Texas til Silfurtúns (e. Silver city) í Nýju Mexíkó. Verkefnið er hættuspil þar sem siðmenningin hefur ekki hafið innreið sína vestan Pjakkár (e. Pecos river). Þegar Lukku Láki og félagar fara með hjörðina yfir ána og nálgast bæinn Langtré (e. Langtry) birtist dómari bæjarins, Hrói grænbaun, vopnaður riffli og handtekur Lukku Láka vegna gruns um nautaþjófnað. Eftir sérkennileg réttarhöld í krá dómarans er Lukku Láki fundinn sekur, hjörðin gerð upptæk og Láki dæmdur til að greiða 50 dollara sekt. Um sama leyti kemur til bæjarins lögfræðingurinn Snúður Snepill sem kemur á fót nýjum dómstól í samkeppni við Hróa grænbaun. Ófremdarástand skapast í bænum vegna réttaróvissu sem af þessu hlýst, en þegar Hrói grænbaun yfirgefur bæinn kemur í ljós að Snúður Snepill er síst skárri en gamli dómarinn og féflettir bæjarbúa í krafti embættisins og með aðstoð hins hengingarfúsa útfararstjóra Langtrés. Lukku Láki og Hrói grænbaun snúa þá bökum saman og bæjarbúar, sem halda að Snepill hafi myrt þá báða, taka Snepil og útfararstjórann höndum. Hrói grænbaun snýr aftur til Langtrés og dæmir Snepil og útfararstjórann í útlegð frá bænum. Lukku Láki kallar hins vegar riddaraliðið á vettvang til að velta Hróa dómara úr sessi og Hrói er tilneyddur til að dæma um eigin sök í furðulegustu réttarhöldum villta vestursins.
Fróðleiksmolar
breyta- Persóna Hróa grænbaun er byggð á hinum þjóðsagnakennda kráareiganda Roy Bean sem var dómari í bænum Langtry í Texas undir lok 19. aldar og réttaði yfir sakborningum í dómkrá sinni The Jersey Lilly. Af honum voru sagðar ýmsar sögur, sannar og ósannar, og í bókinni er stuðst við sumar þeirra. Þannig mun viðskiptavinur krárinnar einhverju sinni hafa greitt 30 senta bjórglas með 20 dollara seðli, en ekkert fengið til baka. Þegar hann kvartaði umbreyttist vertinn í dómara og dæmdi viðkomandi í 19,70 dollara sekt fyrir að raska friði og lögum. Sjá bls. 40 í íslensku útgáfu bókarinnar.
- Í bókinni skipar Hrói grænbaun sjálfan sig dómara í Langtré. Roy Bean var hins vegar skipaður dómari af lögmætum yfirvöldum í Texas, enda var mikil þörf á að hafa dómara í héraðinu þannig að komast mætti hjá því að flytja afbrotamenn á svæðinu um langan veg til að rétta mætti yfir þeim í Fort Stockton.
- Roy Bean kallaði dómkrá sína The Jersey Lilly í höfuðið á bresku leikkonunni Lillie Langtry. Teikningar af henni (sem ekki eru eftir Morris) má sjá á nokkrum stöðum í bókinni, t.d. á bls. 11 í íslensku útgáfunni. Kráin stendur enn í smábænum Langtry í Texas.
- Á kápu íslensku útgáfunnar heldur Hrói á símaskrá. Á upprunalegu kápunni heldur hann á lagasafni (f. Code civil).
- Eftirmáli bókarinnar er þýðing á frásögn Morris sjálfs af Roy Bean.[1]
- Frá því að Morris hóf að teikna Lukku-Láka sögurnar árið 1946 hafði hann haldið óslitinni númeraröð á hverri blaðsíðu bókanna. Þess vegna er fyrsta síðan í Rangláta dómaranum merkt 523 og sú síðasta 566. Þessu lauk með næstu bók, Allt í sóma í Oklahóma.
Íslensk útgáfa
breytaRangláti dómarinn var gefin út af Fjölva árið 1979 í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen. Þetta er 18. bókin í íslensku ritröðinni.
Heimildir
breyta- Lucky-Luke. 1957-1958. Egmont Serieforlaget A/S. 2003
- Lucky Luke. Nouvelle Intégrale 5. Dupuis. 2023.
- ↑ Lucky-Luke. 1957-1958. Egmont Serieforlaget A/S. 2003