Rakarafrumvarpið
Rakarafrumvarpið var frumvarp um afgreiðslutíma rakarastofa og annarra vinnustofa sem voru í viðskiptum við almenning. Það var lagt fyrir Alþingi árið 1924 og samþykkt árið 1928. Þetta frumvarp varð mikið hitamál á Íslandi, og mikið um það skrifað í blöðunum. Frumvarpið var fellt á Alþingi fjögur þing í röð, en náði loks loks samþykkt árið 1928.
Halldór Laxness skrifaði um deilurnar um rakarafrumvarpið í Brekkukotsannál og notaði það sem dæmi um hve Íslendingar eyddu miklu púðri í tittlingaskít meðan aðalatriðin yrðu útundan. Hann segir hæðnislega frá rakarafrumvarpinu í bókinni:
- Átti að þolast bæjarfélaginu að rakarastofum væri lokið upp á morgnana klukkan sex eða sjö og síðan haldið áfram að raka fólk þángað til um miðnætti?
Eftirlitsmaðurinn, persóna í Brekkukotsannál, lætur í ljós skoðanir sínar á frumvarpinu. Hann segir þar:
En hvað rakarafrumvarpið viðvíkur, þá mundi ég segja þetta: rakaðu þig hvar sem þú vilt hvenær sem þú vilt og hvurnin sem þú vilt, bara að þú sért ekki fyrir öðrum mönnum. | ||
— Brekkukotsannáll, kafla 31 [1]
|
Halldór Laxness minntist síðar á rakarafrumvarpið í grein um hundahald sem hann skrifaði í Morgunblaðið árið 1970. Þar sagði hann:
- Mig minnir að deilan hafi staðið um það, klukkan hvað ætti að loka rakarastofum á kvöldin. Ýmsir smápólitíkarar og kleyfhugar lögðu þetta mál fyrir sig sem sérfræðigrein, eða kannski maður ætti að segja rórill. Á einum æsingafundi um málið í Barnaskólaportinu, þar sem líka voru krakkar, heyrði ég og sá þektan borgara æpa undir einni ræðunni: Hér skal blóð mæta blóði. (Mig minnir ég hafi einhversstaðar komið deilunni um Rakarafrumvarpið á framfæri í róman, en ef ég man rétt gerði ég fundinn þó akademiskari en þessir fundir voru í raun og veru). [2]