Rúnar Helgi Vignisson

íslenskur rithöfundur og þýðandi

Rúnar Helgi Vignisson (f. 1959) er íslenskur rithöfundur og þýðandi og prófessor í ritlist við Háskóla Íslands. Hann hefur skrifað skáldsögur, smásögur, sagnasveiga, sannsögur og fjölda greina. Rúnar Helgi hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin 2006 fyrir Barndóm eftir J. M. Coetzee og verðlaun Menntaráðs Reykjavíkurborgar árið 2007 fyrir bestu þýddu barnabókina, Sólvæng. Meðal annarra útgefinna verka hans má nefna skáldsögurnar Nautnastuld (1990), sem var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Ástfóstur (1997), Feigðarflan (2005) og smásagnasafnið Ást í meinum sem hreppti Menningarverðlaun DV 2012. Þá hefur Rúnar Helgi verið tilnefndur til Menningarverðlauna DV fyrir þýðingu sína Friðþægingu eftir Ian McEwan og til Íslensku þýðingaverðlaunanna fyrir Sem ég lá fyrir dauðanum eftir William Faulkner. Þýðingarnar Silfurvængur og Göngin fengu heiðursútnefningu IBBY-samtakanna. Rúnar Helgi var útnefndur bæjarlistamaður í Garðabæ árið 2006. Árið 2008 var hann ráðinn til Háskóla Íslands til að hafa umsjón með ritlistarnámi við skólann.

  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.