Rígsþula
Rígsþula eða Rígsmál er eitt af Eddukvæðum. Hún er aðeins varðveitt í einu handriti Snorra-Eddu, Ormsbók, og er þar óheil, meðal annars vantar aftan á hana. Í kvæðinu er stéttaskiptingu samfélagsins lýst og sagt frá ólíkum lífsháttum og verkaskiptingu stétta.
Í Rígsþulu segir frá ásinum Heimdalli þegar hann ferðast um undir nafninu Rígur og verður forfaðir þriggja meginstétta. Fyrst kemur hann að húsi þar sem hjónin Ái og Edda búa. Þau bjóða honum gistingu og þann mat sem þau eiga bestan, þungt, þykkt og gróft brauð, soð í bolla og soðið kálfakjöt. Níu mánuðum síðar elur Edda soninn Þræl og verður hann forfaðir þræla og ambátta.
Síðan kemur Rígur að öðru og veglegra húsi hjónanna Afa og Ömmu og fer þar á sömu leið; Amma elur soninn Karl og verður hann forfaðir karla (smábænda og vinnufólks). Að lokum liggur leið Rígs heim til Föður og Móður og fær þar þunnt, hvítt brauð, flesk og fugla steikta og vín í könnu - og níu mánuðum síðar fæðist sonurinn Jarl, sem verður forfaðir stórbænda og höfðingja. Yngsti sonur Jarls nefnist Konur ungur = Konungur.