Pund (mælieining)
Pund (stytting lb) er massaeining sem notuð er í Bandaríkjunum, Bretlandi og ýmsum öðrum löndum. Nokkrar skilgreiningar á pundinu hafa verið notaðar í gegnum tíðina en helsta skilgreiningin sem notuð er í dag er svokallaða avoirdupois-pundið sem jafngildir 0,45359237 kg. Þessi skilgreining á pundinu hefur verið í gildi alþjóðlega síðan 1. júlí 1959.
Pundið á rætur að rekja til rómversku mælieiningarinnar libra (þess vegna er styttingin lb) en orðið „pund“ er komið af latneska orðasambandinu libra pondo sem þýðir „eins punds lóð“.
Pundið var einu sinni í notkun á Norðurlöndunum, til dæmis jafngilti norska pundið 498 grömmum en sænska pundið 425 grömmum (svokallaða skálpundið). Í Danmörku jafngilti pundið 471 grammi en skilgreiningunni var breytt á 19. öld þannig að pundið var jafngilt 500 grömmum í kjölfar slíkrar breytingar í Þýskalandi. Eitt pund skiptist í tvær merkur (1 mörk = 250g). Á Íslandi er þyngd nýbura oft gefin upp í mörkum enn í dag þó að metrakerfið sé notað á öllum öðrum sviðum. Þessi hefð er arfur gamla mælieiningakerfisins.
Heimildir
breyta- Svar við „Er mælieiningin "mörk" um þyngd nýbura séríslensk, og hvaðan kemur orðið í þessari merkingu?“ á Vísindavefnum. Sótt 4. september 2012.