Perceval eða Sagan um gralinn
Perceval eða Sagan um gralinn er frönsk ljóðsaga eftir Chrétien de Troyes, sem var eitt virtasta skáld miðalda og sótti gjarnan yrkisefni til sagna um Arthúr konung og riddara hans. Perceval var síðasta verk höfundarins, samið á árabilinu 1180–1191, en hann lést án þess að hafa lokið verkinu. En þrátt fyrir lausa enda er Perceval með bestu riddarasögum miðalda, er raunsærri en flestar þeirra og full góðlátlegrar kímni.
Í fyrri hlutanum segir frá Perceval, ungum manni sem yfirgefur móður sína til að verða riddari. Í kastala Fiskikonungsins sér hann gralið og spjótið með oddinum sem blæðir úr. Þá verða straumhvörf í lífi hans.
Í síðari hlutanum er fjallað um ævintýri riddarans Gauvains, og vandræði sem hljótast oft af samskiptum hans við konur.
Perceval eða Sagan um gralinn kom út 2010 í íslenskri þýðingu Ásdísar R. Magnúsdóttur, í ritröðinni Lærdómsrit Bókmenntafélagsins. Þar er verkið þýtt eins og það er í frönskum handritum frá fyrri hluta 13. aldar.
Parcevals saga
breytaPerceval eða Sagan um gralinn, er eitt þriggja verka Chrétiens sem þýdd voru á norrænu (íslensku) á 13. öld, og kallast þar Parcevals saga. Þýðingin er í lausu máli, og talsvert stytt. Síðari hluti verksins kallast þar Valvers þáttur, eftir riddaranum Valver (Gauvain) sem er þar í aðalhlutverki.
Aðgengileg útgáfa af Parcevals sögu og Valvers þætti er í bókinni: Með kurt og pí. Riddarasögur handa grunnskólum, Mál og menning, Rvík 1988, bls. 33–137. Baldur Hafstað og Kolbrún Bergþórsdóttir sáu um útgáfuna.
Hin verkin sem til eru í 13. aldar þýðingu, eru Erex saga og Ívents saga.