Pangea Ultima
tilgáta um framtíðarþróun meginlands jarðarinnar
Pangea Ultima, Pangea Proxima, Neopangea eða Pangea II er mögulegt risameginland sem í samræmi við hringrás risameginlanda gæti myndast á næstu 100 til 200 milljón árum. Samkvæmt tilgátunni munu Atlantshaf og Indlandshaf lokast með þeim afleiðingum að Ameríka nær saman við Evrópu og Afríku að nýju. Tilgátan kemur frá bandaríska jarðfræðingnum Christopher Scotese sem byggir hana á athugun á fyrri þróun risameginlanda. Hann stakk upphaflega upp á nafninu Pangea Ultima („síðasta aljörð“) en breytti því svo í Pangea Proxima („næsta aljörð“) til að fyrirbyggja þann misskilning að þetta yrði síðasta risameginlandið sem myndaðist á Jörðinni.