Pípugerð Reykjavíkur
Pípugerð Reykjavíkur eða Pípugerð Reykjavíkurbæjar var borgarfyrirtæki sem stofnað var árið 1946 en einkavætt á árinu 1996. Tilgangur þess var að framleiða steinsteyptar pípur fyrir veitufyrirtæki Reykjavíkur, einkum klóaklagnir, sem og gangstéttarhellur. Fyrirtækinu má ekki rugla saman við einkafyrirtækið Pípuverksmiðju Reykjavíkur sem stofnað var árið 1907.
Saga
breytaÁ árum seinni heimsstyrjaldarinnar var oft skortur á holræsapípum og gagnstéttarhellum í Reykjavík. Til að bregðast við þessu festu bæjaryfirvöld kaup á pípugerðarvél frá Keflavíkurflugvelli og hóf framleiðslu á eigin vegum. Hið nýja fyrirtæki, sem stofnað var í maí 1946, fékk nafnið Rörsteypa Reykjavíkurbæjar en því var síðar breytt.
Í fyrstu starfaði fyrirtækið í gömlum herbröggum við Langholtsveg. Miðaðist framleiðslan til að byrja með við pípur frá fjórum og upp í fimmtán tommur að innanmáli, en fljótlega voru keyptar stærri og öflugri vélar sem réðu við allt að 140 sm víðar pípur.
Á árunum 1965-66 var starfsemin aukin og flutt í gamla grjótnámu í Ártúnshöfða. Þar starfaði fyrirtækið upp frá því.
Um 1990 hófu borgaryfirvöld í Reykjavík stórfellda einkavæðingu fyrirtækja sinna og tveimur árum síðar var samþykkt í borgarráði að stefna að sölu Pípugerðarinnar. Það gekk þó ekki að fullu í gegn fyrr en á hálfrar aldar afmæli fyrirtækisins árið 1996. Hið nýja fyrirtæki starfaði fyrst um sinn undir nafninu Pípugerðin hf.
Tilvísanir og heimildir
breyta- Guðjón Friðriksson (2021). Cloacina. Saga fráveitu. Veitur. ISBN 978-9935-24-901-2.