Orrustan á Kolbergerheiði
Sjóorrustan á Kolbergerheiði (da. Søslaget på Kolberger Heide) fór fram þann 1. júlí árið 1644 og þar töpuðu Svíar fyrir Dönum. Orrustan var hluti af landvinningatilraunum Svía í Þrjátíu ára stríðinu. Claes Fleming stýrði sænska flotanum en konungurinn Kristján 4. þeim danska. Danakonungur féll við þegar hann fékk sprengjuflís í höfuðið og menn hans héldu fyrst að hann væri fallinn, en hann reis upp blóði drifinn, hvatti menn sína til dáða og vann sigur. Konunglegi danski þjóðsöngurinn, Kong Christian stod ved højen mast, hefst á því hvað konungur hafi staðið sig hetjulega í þessari orrustu.
Danski (eða dansk-norski) flotinn taldi 40 skip með 927 fallbyssur og missti um 200 menn fallna og særða. Svíar höfðu 41 skip og 1018 fallbyssur og misstu 101 mann fallinn og særðan.
Segja má að Kolbergerheiðarorrusta hafi fyrst og fremst verið taktískur sigur fyrir Dani, en ekki strategískur, því þeim tókst að hindra sænska flotann í að komast út úr Kílarfirði. Hins vegar losnuðu Svíar úr herkvínni nokkrum mánuðum seinna og í annarri sjóorrustu þann 13. október sama ár gersigruðu Svíar danska flotann með aðstoð hollensks leiguflota.