Olympíustrumpurinn

Olympíustrumpurinn (franska: Les Schtroumpfs Olympiques) er ellefta bókin í ritröðinni um Strumpana og kom út árið 1979. Listamaðurinn Peyo teiknaði og samdi söguna. Hún var jafnframt sjöunda strumpabókin sem kom út á íslensku árið 1980.

Söguþráður

breyta

Olympíustrumpurinn er eina saga bókarinnar. Efnt er til íþróttamóts í strumpaþorpinu, sem allir strumparnir vilja ólmir taka þátt í eftir að lofað er sigurlaunum, kossi frá Strympu. Óhappastrumpur vill ólmur taka þátt, en vegna hrakfalla hans vilja aðrir strumpar ekki vera með honum í liði. Eftir margvísleg áföll og smáskrítlur í undirbúningnum fyrir íþróttamótið er Óhappastrumpur við það að gefast upp. Yfirstrumpur gefur honum töframeðal til að smyrja á nefbroddinn og Óhappastrumpur vinnur frægan sigur. Við verðlaunaafhendinguna tekur samviskan yfirhöndina og hann játar að hafa beitt ólöglegu töfralyfi, en Yfirstrumpur ljóstrar því upp að um venjulega sultu hafi verið að ræða. Öllum að óvörum hreppir þó dómarinn Gáfnastrumpur kossinn frá Strympu.

Bókin er óvenjuleg að því leyti að allar 28 blaðsíðurnar eru eitt ævintýri, þótt söguþráðurinn sé laus í reipunum á köflum.

Íslensk útgáfa

breyta

Bókin kom út á vegum Iðunnar árið 1980 í samvinnu við danska forlagið Carlsen. Þýðingin var gefin út undir dulnefninu Strumpur.