VestFiðringur
VestFiðringur er verkefni í skapandi greinum sem byggir á sérkennum mismunandi menningarsvæða Vestfjarða. VestFiðringur virkjar íbúana í söfnun upplýsinga um sérkenni í náttúrufari, umhverfi og menningu viðkomandi svæðis og birtir þær á netinu öllum til gagns (open source). Í öðrum áfanga eru sett af stað átaks- og þróunarverkefni fyrir öll menningarsvæðin þar sem heimafólk, sérfræðingar og fagfólki í skapandi greinum vinnur saman að nýsköpunarverkefnum. Verkefnin eru af margvíslegum toga og byggja á því efni sem safnast hefur í gagnagrunna VestFiðrings.
Skapandi greinar eru m.a.: • Menningararfur, safna- og minjavarsla • Sviðlistir - leiklist og dans • Tónlist • Myndlist • Hönnun - vöruhönnun, fatahönnun, upplifunarhönnun o.s.frv. • Byggingarlist • Kvikmyndagerð - þ.m.t. gerð sjónvarpsefnis og teiknimynda • Bókmenntir
Verkefnið sprettur af þörf fyrir skilgreiningar á sjálfsmynd íbúa mismunandi svæða og lýtur að staðbundnum menningararfi; hvað er til staðar, hvernig á að fara með það og hvernig má miðla því, njóta og nýta á faglegan og arðbæran hátt. VestFiðringur kemur því til leiðar að sértækum verkefnum verði hrundið í framkvæmd sem byggja á þessum skilgreiningum og þeim upplýsingum sem verkefnið laðar fram.
Vestfirðir búa yfir óþrjótandi möguleikum. Landsvæðið er margbrotið, það er fámennt en býr yfir aldagamalli sögu sem sker sig úr á landsvísu og þó víðar væri leitað. Þessi efniviður hefur ekki verið kannaður nema að litlu leyti. Staðbundin þekking er gulls ígildi, hún er fjársjóður sem oft gleymist og hverfur í skuggann af hálærðum rannsóknarskýrslum. Almenningur gerir sér ekki alltaf grein fyrir hvað hann býr yfir merkilegum upplýsingum. Með því að leiða saman fólk með staðbundna þekkingu, fólk í skapandi greinum og sérfræðinga á ýmsum sviðum getur þessi fjársjóður margfaldast.
VestFirðringur vinnur sem hreyfiafl að því að leiða nýsköpunarverkefnin og sjá til þess að skapandi hugsun og fagmennska setji mark sitt á ferlið frá upphafi til enda.
Áætlanir gera ráð fyrir að allt að 9 ársverk muni verða til á næstu 5-7 árum, um er að ræða bæði hlutastörf (sum árstíðabundin) og full störf, allt eftir eðli verkefna.
Verkefninu er skipt í þrjá áfanga: 1. Upplýsingaöflun 2. Átaks- og þróunarverkefni 3. Kaupstefnur annað hvert ár