Notandi:Spm/Styrkbeiðni Wikimania 2006

Komið þið sæl,

Okkur langaði til þess að kynna fyrir ykkur verkefnið Wikipedia, sem ætti þó varla að þurfa neina kynningu. Verkefnið snýst um gerð frjáls alfræðirits á fjölmörgum tungumálum, með samvinnu áhugamanna um heim allan. Nú er fimmta starfsár Wikipedia hafið, en íslensk útgáfa af Wikipedia hefur verið starfandi í tvö ár. Við undirrituð ásamt dágóðum hópi áhugamanna höfum verið að þróa þetta alfræðirit á íslensku, og eru nú greinarnar óðum að nálgast 10.000 talsins hjá okkur. Sumar hverjar eru ótrúlega ítarlegar – meðal svokallaðra úrvalsgreina hjá okkur, sem eru greinar sem við höfum valið úr sem sérstaklega vandaðar greinar, og hafa á síðustu sex mánuðum bæst við í þeirra röð greinar á borð við „rafhlaða“, „körfuknattleikur“, „sannleikur“, „Flórens“ og „shogi“.

Enska útgáfa Wikipedia er þegar orðin stærsta og jafnframt eitt ítarlegasta alfræðirit heims, með um 920.000 greinar, og um 2-3.000 greinar bætast við á degi hverjum. Samtals nálgast Wikipedia á öllum tungumálum nú um tvær milljónir greina – sumar eru vissulega afar ómerkilegar, en aðrar eru ótrúlega góðar.

Það er von okkar sem stöndum að Wikipedia, bæði hérlendis og erlendis, að stjórnvöld sjái tækifæri í Wikipedia til þess að koma á framfæri menningar- og söguarfi þjóðarinnar og að þessi þekkingargrunnur nýtist sem heimild við ritgerðarsmíð á öllum skólastigum sem og almennt uppflettirit landsmanna. Íslensku Wikipedia má nálgast á vefslóðinni http://is.wikipedia.org/.

Wikipedia er mjög stórt verkefni, og þarfnast alþjóðlegrar samstöðu og samhæfingar, og er því í ár stefnt að því að halda ráðstefnu um Wikipedia og önnur verkefni Wikimedia-stofnunarinnar í annað sinn, í þetta sinn í Boston í Bandaríkjunum. Íslenski Wikipedia-hópurinn hefur áhuga á því að reyna að koma einhverjum úr röðum sínum á þessa ráðstefnu – Wikimania 2006 – sem haldin verður 4-6. ágúst næstkomandi. Þar sem flest okkar eru námsmenn ýmist á háskóla- eða framhaldsskólastigi, og fjárhagur eftir því, óskum við eftir styrkveitingu vegna þessarar ferðar, í þeirri von að íslensk útgáfa þessa alfræðirits hafi einhverja rödd samkomunni. Það er von okkar að hægt sé að fara fram á styrkveitingu vegna ferðakostnaðar úr heimabyggð og til Boston, þátttökugjalds á ráðstefnuna og gistingar á heimavist Harvard í þá viku sem ráðstefnan varir. Hugmynd okkar er sú að styrknum yrði deilt bróðurlega niður á þá einstaklinga sem hafa áhuga á því að fara. Allir undirritaðir hafa áhuga á því að fara, og kostnaður hvers og eins af slíkri ferð nemur líklega um 60.000–80.000 krónum. Við látum það eftir ykkur að ákveða hve stór styrkur yrði, með þetta þó að leiðarljósi.

Það er alveg ljóst að Wiki-tækni hefur slegið í gegn á undanförnum árum. Auk hinnar gríðarlegu stækkunar Wikipedia rekur Wikimedia stofnunin mörg systurverkefni: Wiktionary – orðabók, Wikiquotes – tilvitnanasafn, Wikibooks – sérsamdar kennslubækur, Wikisources – frjálst safn heimilda sem ekki heyra lengur undir höfundarrétt, Wikimedia Commons – safn frjáls margmiðlunarefnis, Wikinews – frjálst fréttaefni, Wikispecies – líffræðigagnagrunnur og svo Wikijunior – alfræði ætluð börnum.

Auk þeirra verkefna sem Wikimedia-stofnunin rekur hafa bæði heima og heiman komið upp margir áhugaverðir Wiki-vefir. Á síðasta ári opnaði Heimaslóð, sögusetur Vestmannaeyja á netinu og hugarfóstur eins úr okkar röðum, sem byggir ekki eingöngu á Wiki-tækni, heldur notast að mestu leyti við sama hugbúnað og öll Wikimedia verkefnin og tók hann frí frá Wikipedia-skrifum sínum til þess að fylgja Heimaslóð úr hlaði. Heimaslóð hefur stækkað og dafnað, og hefur verið tilnefnt til Eyjarósarinnar, verðlauna fyrir menningarverkefni á landsbyggðinni.

Það er von okkar í íslenska Wikipedia að Menntamálaráðuneytið geti orðið verkefninu að liði.

Með von um jákvætt svar,

Smári P. McCarthy (Notandi:Spm),
Guðmundur D. Haraldsson (Notandi:Gdh),
Kristján Rúnarsson (Notandi:Krun),
Ævar Arnfjörð Bjarmason (Notandi:Ævar Arnfjörð Bjarmason),
Jóna Þórunn Ragnarsdóttir (Notandi:Jóna Þórunn),
Herbert Snorrason (Notandi:Odin).

Sjá einnig

breyta