Notandi:Skúbbulína/sandbox

== Hannes Sigurðsson (listfræðingur) ==

Hannes Sigurðsson listfræðingur

Hannes Sigurðsson (fæddur 1960 í Reykjavík) er íslenskur listfræðingur og sýningarstjóri sem hefur verið atkvæðamikill á vettangi íslenskrar myndlistar. Hann var forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri í tæp fimmtán ár (1999-2014) og er framkvæmdastjóri Íslensku menningarsamsteypunnar Art.is sem hann stofnaði árið 1997. Hannes lauk meistaragráðu í listfræði frá UC Berkeley í Kaliforníu árið 1990 eftir að hafa stundað BA nám í listfræði við University College London (1985-1988). Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og útskrifaðist frá málaradeild árið 1984. Sama ár tók hann einnig burtfararpróf í þverflautuleik frá blásaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík.

Hannes starfaði í rúm fjögur ár í New York sem greinarhöfundur og þýðandi og hóf þar feril sinn sem sjálfstæður sýningarstjóri, sá fyrsti á Íslandi. Síðan þá hefur hann staðið að yfir 300 sýningum og umfangsmiklum verkefnum og ritstýrt tugi bóka, fræðirita og bæklinga um myndlist. Árið 1995 var Hannes ráðinn sýningarstjóri við Menningarmiðstöðina Gerðuberg og efndi til svokallaðra Sjónþinga sem samanstóðu af málþingi í tengslum við yfirlitssýningu á verkum mikilvægra íslenskra samtímalistamanna.

Hannes hefur unnið með og sýnt flesta þekktustu myndlistarmenn þjóðarinnar, bæði lífs og liðna, og kynnt margar alþjóðlegar stjörnur og gamla meistara, þ.á.m. Matthew Barney, Louise Bourgeois, Jenny Holzer, Boyle fjölskylduna, Per Kirkeby, Carolee Schneemann, Sally Mann, Orlan, Spencer Tunick, Joel-Peter Witkin, Andres Serrano, Henri Cartier-Bresson, Bill Viola, Fang Lijun, Yue Minjun, Zhang Xiaogang, Rembrandt og Goya. Hannes hefur átt í samstarfi við söfn, stofnanir, skóla, fyrirtæki og gallerí um víða veröld, þar á meðal í Noregi, Finnlandi, Færeyjum, Grænlandi, Lettlandi, Rússlandi, Þýskalandi, Englandi, Skotlandi, Frakklandi, Spáni, Jórdaníu, Indlandi, Japan, Kína og Bandaríkjunum.

Hannes er höfundur og upphafsmaður Íslensku sjónlistaverðlaunanna sem voru fyrst haldin árið 2006 og í þrígang eftir það, en hafa nú verið lögð niður.