Marflugur breyta

Allir sniglar flokkast undir lindýr, þar á meðal svokallaðar marflugur (Clione limacina/ sea angel) sem lifa í svifi sjávar. Marflugur er undirtegund vængsnigla ásamt vængdoppu (Limacina helicina/ sea butterfly) og svifbobbin (L. retroversa). Vængsniglar eiga það sameiginlegt með flest öllum lindýrum, sem og öðrum sniglategundum, að hafa mjúkan búk, en eru þeim frábrugnir að því leyti að þeir hafa ekki harða skel/kuðung sem einkennir snigla og ver þá.[1]

Frændur þeirra eru bertálknar sem eru einnig án skeljar en þeir lifa á hafsbotni. Vængsniglar eru með fálma sem líkjast vængjum sem þeir blaka líkt og fuglar til að koma sér úr stað en það hafa aðrir sniglar ekki. Því skiptir höfuðmáli að vera léttur á sér og þess vegna eru vængsniglar ekki með harða skel. Aftur á móti hafa þeir örþunna og létta skel sem ekki fer mikið fyrir.[2]


Marflugur hafa ákveðið forskot á vængdoppur og svifbobbin, en þær hafa enga skel og eru því enn léttari á sér. Þær eru einnig stærri en hinir vængsniglarnir, en þær geta orðið allt að 8cm að lengd á meðan vængdoppur og svifbobbin eru í kringum 7mm að stærð.[3] Marflugur eru frekar einfaldar lífverur. Þær eru til í nokkrum afbrigðum en bygging þeirra er öll eins, helsti munurinn er lögun og litur. Í efri hluta líkamans eru líffærin sem hafa fallegan óransgulan lit. Dökk, breið rönd gefur til kynna að lífveran er vel mett.[4] Höfuðið er svipað að lit og hefur tvo litla fálmara sem líkjast hornum. Inni í hvorum fálmara eru þrír mjórri og lengri fálmarar sem skjótast út þegar marflugan veiðir sér til matar. Vængir marflugna eru áfastir efri hluta líkamans að aftanverðu og með taktföstum hreyfingum þeirra er líkt og marflugur fljúgi neðansjávar. Allur neðri hluti líkamans er gegnsær og mjókkar í lítinn hala/anga, þó eru sumar marflugur með þennan óranslit neðst á halanum. [5]


Samlíf vængsnigla er ekki svo friðsælt en marflugan nærist nánast eingöngu á hinum tveimur, en þó meira á vængdoppunum þar sem þær eru kaldsjárvardýr líkt og marflugurnar, en svifbobbin þarf heitari sjó.[6] Marflugan notar fálmana sex, sem skjótast úr höfði hennar til að hremma bráðina, draga hana úr skel sinni og éta hana upp til agna. Margir myndu kalla þetta matvendni en marflugur geta leyft sér hana þar sem þær geta lifað í marga mánuði, jafnvel í heilt ár, án þess að éta. Helsta ástæðan er sú að marflugur eru mjög ríkar af lípíðum sem nýtast þeim sem góður orkuforði. Orkuforðinn gerir það að verkum að æviskeið þeirra lengist og ef harðnar í árum og ef lítið er um æti að fá, ganga þær á orkuforðann sinn. Talið er að líftími marflugna séu 2 ár og jafnvel lengur. [7]


Marflugur fjölga sér með kynlausri æxlun með því að gefa frá sér kúlulaga hlaupmassa sem er úr gelatíni. Inni í fljótandi massanum eru eggin. Massinn flýtur um í sjónum en þegar eggin klekjast út hafa afkvæmin litla skel sem þau losa sig svo við eftir nokkra daga.[8] Heimkynni marflugna er við yfirborð sjávar eða vatns og niður að 500 metra dýpi. Marflugur eru algengastar t.d í Atlantshafi, í norður kyrrahafi og í suðurskautinu.[9] Marflugur eru algengar við Ísland, þó eru þær algengari á norður- og austurlandi þar sem sjórinn er kaldari.[10]


Heimildir

Á. F., 1933. Náttúrufræðingurinn, bls. 15-16. Sótt 5.nóvember 2013 af http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=4263039&issId=290511&lang=da

Böer, M., Gannefors, C., Graeve, M., Hop, H., Kattner, G., og Petersen, S. (2005, júlí). The arctic pteropod Clione limacina: seasonal lipid dynamics and life strategy. Marine Biology, 147(3), 707-717. Sótt 6. nóvember 2013 af http://link.springer.com/article/10.1007/s00227-005-1607-8

Encyclopedia of life. (e.d.). Brief Summary. Sótt 5. nóvember 2013 af http://eol.org/pages/451920/details

Hopcroft, R. (2010, janúar). Sea angel, clione limacina. Arctic Ocean Diversity. Sótt 5. nóvember 2013 af http://www.arcodiv.org/watercolumn/pteropod/Clione_limacina.html Phipps, 1774. Clione limacina. Sea angel. Sótt 3. Nóvember 2013 af http://jellieszone.com/clione.htm

Vistey, a, (e.d). Lindýr. Sótt 3. nóvember 2013 af http://vistey.is/is/lindyr

Vistey, b, (e.d). Vængsniglar. Sótt 3. nóvember 2013 af http://vistey.is/is/lindyr/vaengsniglar

  1. Vistey, a, (e.d.)
  2. Vistey, b, (e.d.) Á.F., 1933.
  3. Vistey, b, (e.d.)
  4. Hopcroft, 2010
  5. Phipps, 1774
  6. Vistey, b, (e.d.)
  7. Böer o.fl., 2005.
  8. Phipps, 1774.
  9. Encyclopedia of life. (e.d.)
  10. Vistey, b, (e.d.)