Netkaffi
(Endurbeint frá Netkaffihús)
Netkaffi, netkaffihús eða Internetkaffi, er staður þar sem boðið er upp á aðgang að tölvum með nettengingu gegn gjaldi. Stundum er líka boðið upp á hefðbundna kaffihúsaþjónustu. Venjulega er rukkað fyrir þann tíma sem notandi ver í tölvum.
Fyrsta netkaffið var Electronic Café sem var opnað í Seúl árið 1988 en blómaskeið slíkra staða var um miðjan 10. áratug 20. aldar. Fyrsta netkaffið á Íslandi var Síbería sem var opnuð í kjallara Bíóbarsins við Klapparstíg árið 1995 og bauð upp á netsamband við netþjónustuaðilann Miðheima. Eftir að þráðlausar nettengingar urðu útbreiddari og öflugri um 2002 hafa vinsældir netkaffihúsa minnkað en sum þeirra hafa gengið í endurnýjun lífdaga sem netspilunarstaðir.