Nebúkadnesar 2.

konungur Babýlon frá 605 til 562 f. Kr

Nebúkadnesar 2. (𒀭𒀝𒆪𒁺𒌨𒊑𒋀 eða Nabû-kudurri-uṣur á akkadísku; נְבוּכַדְנֶאצַּר eða Nivūkádne’ṣar á hebresku) var konungur Babýlon frá 605 – 562 f. Kr. og ríkti lengur en nokkur annar konungur nýbabýlónska heimsveldisins.[1] Nafn hans merkir „Ó, guðlegi Nabú, verndaðu frumburð minn“.

Mynd af Nebúkadnesar 2. greipt á eðalstein.

Æviágrip

breyta

Nebúkadnesar var elsti sonur og arftaki Nabúpólassars, assyrísks embættismanns sem gerði uppreisn og lýsti sig konung Babýlons árið 620 f. Kr. Konungsættin sem hann stofnaði átti eftir að vera við völd til 539 f. Kr. en þá lagði Kýros mikli nýbabýlónska veldið undir sig.[2]

Fyrst er minnst á Nebúkadnesar árið 607 f. Kr. við eyðileggingu Assyríu en þá var hann þegar krónprins.[3] Árið 605 f. Kr. leiddu þeir Nebúkadnesar og Cyaxares, leiðtogi Meda og Persa, her gegn Assyringum og Egyptum, sem stóðu þá í hernámi á Sýrlandi. Í bardaganum við Carchemish var Nekó 2. sigraður og Babýloníumenn lögðu undir sig Sýrland og Fönikíu.

Nabúpólassar lést í ágúst árið 605 f. Kr. og Nebúkadnesar sneri aftur til Babýlon til að taka við völdum.[4] Næstu árin einbeitti hann sér að því að ná stjórn á austur- og norðurlandamærum veldis síns og árið 549/5 f. Kr. var gerð stutt en alvarleg uppreisn í Babýlon sjálfri.[5]

Árið 594 f. Kr. var herinn sendur til vesturs á ný, hugsanlega vegna valdatöku Psammetichusar 2. í Egyptalandi.[6] Konungurinn Sedekía í Júdeu reyndi að leiða mótspyrnu á meðal smáríkjanna á svæðinu en höfuðborg hans, Jerúsalem, var hernumin af Babýlóníumönnum árið 587 f. Kr. Atburðum þessum er lýst í Konungsbók og Jeremíasarbók biblíunnar.[7] Næstu árin innlimaði Nebúkadnesar Fönikíu og fyrrverandi Assyríufylkin í Kilikíu (í suðvestur-Anatólíu). Hugsanlegt er að hann hafi haldið í herfarir til Egyptalands.[8] Undir lok ævi sinnar virðist Nebúkadnesar hafa misst vitið og er sagður hafa hunsað börn sín og verið afar tortrygginn gagnvart sonum sínum.[9] Konungarnir sem komu á eftir honum ríktu aðeins í stuttan tíma og þeim síðasta, Nabonidusi, sem ekki virðist hafa verið af konungsættinni, var steypt af stóli af Kýrosi mikla tæpum tuttugu og fimm árum eftir dauða Nebúkadnesars.

Rústir Babýlonborgar Nebúkadnesars spanna um níu ferkílómetra og eru stærsta fornminjasvæði Miðaustursins.[10] Nebúkadnesar lét stækka konungshöllina (þar á meðal almenningssafn hallarinnar, líklega hið fyrsta sinnar tegundar), lét byggja og gera við hof, byggði brú yfir Efrat og reisti mikinn forgarð og glæsilegt hlið (Istarhliðið) úr gljáandi múrsteinum.[11] Á hverjum vorsólstöðum átti guðinn Mardúk að koma út úr borgarhofinu fyrir utan borgarmúrana og halda inn í borgina í gegnum Istarhliðið og forgarðinn við mikinn fögnuð borgarbúanna.

Tilvísanir

breyta
  1. Freedman, David Noel (2000). "Nebuchadnezzar". In Freedman, David Noel; Myers, Allen C. Eerdmans Dictionary of the Bible. Eerdmans. Bls. 953.
  2. Bertman, Stephen (2005). Handbook to Life in Ancient Mesopotamia. Oxford University Press. Bls. 95
  3. Wiseman, D.J. (1991a). "Babylonia 605–539 BC". In Boardman, John; Edwards, I. E. S. The Cambridge Ancient History, Volume III Part II. Cambridge University Press. Bls. 182.
  4. Wiseman, bls. 183.
  5. Wiseman, bls. 233.
  6. Wiseman, bls. 233.
  7. Wiseman, bls. 233-234.
  8. Wiseman, bls. 233-235.
  9. Foster, Benjamin Read; Foster, Karen Polinger (2009). Civilizations of Ancient Iraq. Princeton University Press. Bls. 131
  10. Arnold, Bill T. (2005). Who Were the Babylonians?. BRILL. Bls. 96.
  11. Bertman, bls. 96.