Naustaskóli

grunnskóli í Nausta- og Hagahverfi á Akureyri

Naustaskóli er grunnskóli í Nausta- og Hagahverfi á Akureyri. Þar voru 388 nemendur árið 2021. Skólinn var stofnaður haustið 2009.

Í Naustaskóla á Akureyri er kennt með teymisvinnu kennara, í opnu kennslurými. Nemendur eru í aldursblönduðum hópum þar sem tveimur árgöngum er blandað saman. Skólinn er einn 10 grunnskóla bæjarins.

Stærð

breyta

Árið 2021 voru í Naustaskóla 388 nemendur í 1.—10. bekk. Það ár voru við skólann 59 stöðugildi starfsmanna, þar af voru 37 stöðugildi kennara.[1]

Starfssemi Naustaskóla hófst haustið 2009. Fyrsta starfsárið voru nemendur um 150 í 1.-7. bekk. Síðan bættust árlega við einn árgangur eða um 50 nemendur. Naustatjörn, leikskóli Naustahverfis, nýtir að hluta húsnæði Naustaskóla.[2]

Staðsetning

breyta

Naustaskóli er við Hólmatún í Naustahverfi á Akureyri. Nemendur úr Nausta- og Hagahverfi sækja aðallega skólann.

Skólinn er í einu nýjasta hverfi Akureyrar, milli hamrana undir Súlum og Eyjafjarðarleira, í nálægð við helstu útivistarperlur bæjarins; Kjarnaskóg og Naustaborgir.

Í sveitarfélaginu eru grunnskólarnir ekki hverfaskiptir nema að því leyti að hvert barn á rétt til skólagöngu í sínum hverfisskóla.[3] [4] [5]

Stjórnun

breyta

Skólastjóri Naustaskóla (2023) er Bryndís Björnsdóttir. Aðrir í stjórnendateymi skólans eru þau Aðalheiður Skúladóttir og Heimir Örn Árnason.[6]

Í ytra mati Menntamálastofnunar sem framkvæmt var árið 2020 þykja stjórnendur skólans dreifa ábyrgð og gefa þróunarhópum skýr skilaboð um umboð og ábyrgð. Framkvæmd innra mats skólastarfs sem er álitið er mikilvægt og sjálfsagður hluti, er á ábyrgð stjórnenda. Skólinn þykir hafa símenntunaráætlun sem styður við innra þróunarstarf.[7]

Nám og kennsla

breyta

Skipulag skólastarfs Naustaskóla byggir á sveigjanleika og er í mörgu frábrugðið því sem hefðbundið er. Að mestu er kennt í aldursblönduðum hópum þar sem nemendum í tveimur árgöngum er blandað saman, bæði í umsjónarhópa og námshópa. Kennslurýmið er opið. Kennsla er teymisvinna þar sem tveir eða fleiri kennarar bera samábyrgð á nemendahópum.[8]

Skólastarf Naustaskóla tekur mið af grunnþáttum menntunar, lykilhæfni og námi nemenda samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla og menntastefnu Akureyrar. Við stofnun árið 2009, var skólastefnan einnig mótuð í samvinnu við foreldra. Áhersla er á fjölbreytta kennsluhætti og námsaðlögun, aldursblöndun og teymiskennslu í opnum kennslurýmum. Auk námsaðlögunar er kveðið á um athvarf, umhyggju, virðingu, samvinnu, táp og fjör og þátttöku allra. Kennslu aldursblandaðra hópa er ætlað að undirstrika það að allir séu einstakir og því eðlilegt að nemendur séu á ólíkum stað í náminu.[9]

„Hlutverk skólans er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda, að mennta ábyrga og hæfa þjóðfélagsþegna sem geta tekið virkan þátt í þróun samfélagsins og stundað frekara nám. Allir skulu öðlast alhliða menntun og fá hvatningu til náms í samræmi við þroska sinn og áhuga.“[10]

Skólabragur og hefðir

breyta

Sveigjanleiki, aldursblöndun og teymisvinna í opnum kennslurýmum markar skólabraginn. Leiðarljós skólastarfs Naustaskóla eru: Námsaðlögun, Athvarf, Umhyggja og virðing, Samvinna, Táp og fjör og Allir með. Saman myndar þetta upphafsstafina NAUSTA.[11]

Í Naustaskóla er fjölbreyttur nemendahópur og þó nokkur fjöldi nemenda sem eiga annað tungumál en íslensku að móðurmáli. Vorið 2023 voru nemendur af 23 þjóðernum.[12]

Naustaskóli hefur sérstakar reglur um notkun símtækja. Símar eru bannaðir í kennslustundum og í matsal skólans. Unglingastig má þó nota síma í frímínútum og í hádegishlé.[13]

Tenglar

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. „Rekstur leik- og grunnskóla“. Samband íslenskra sveitarfélaga. Sótt 8. ágúst 2023.
  2. Svanfríður Jónasdóttir og Þórdís Hauksdóttir (2020). „Menntamálastofnun: Ytra mat grunnskóla: Naustaskóli Akureyri október 2018“ (PDF). Menntamálastofnunar. Sótt 8. ágúst 2023.
  3. Akureyrarkaupstaður. „Skólaval“. Akureyrarbær. Sótt 8. ágúst 2023.
  4. Skóladeild Akureyrarbæjar (2007). „SKÓLAVAL 2007- Bæklingur um skólaval“ (PDF). Skóladeild Akureyrarbæjar. Sótt 8. ágúst 2023.
  5. Akureyrarbær (2023). „Skólasvæða Akureyri - Kort er sýnir 1.5 km radíus frá skólum bæjarins“ (PDF). Akureyrarbær. Sótt 8. ágúst 2023.
  6. Naustaskóli. „Skólaráð“. Naustaskóli. Sótt 9. ágúst 2023.
  7. Svanfríður Jónasdóttir og Þórdís Hauksdóttir (2020). „Menntamálastofnun: Ytra mat grunnskóla: Naustaskóli Akureyri október 2018“ (PDF). Menntamálastofnunar. Sótt 8. ágúst 2023.
  8. Ágúst Jakobsson (12. desember 2008). „Fréttabréf Naustaskóla 1. tölublað, 1. árgangur“ (PDF). Naustaskóli. Sótt 8. ágúst 2023.
  9. Svanfríður Jónasdóttir og Þórdís Hauksdóttir (2020). „Menntamálastofnun: Ytra mat grunnskóla: Naustaskóli Akureyri október 2018“ (PDF). Menntamálastofnunar. Sótt 8. ágúst 2023.
  10. Naustaskóli. „Stefna skólans“. Naustaskóli. Sótt 9. ágúst 2023.
  11. Svanfríður Jónasdóttir og Þórdís Hauksdóttir (2020). „Menntamálastofnun: Ytra mat grunnskóla: Naustaskóli Akureyri október 2018“ (PDF). Menntamálastofnunar. Sótt 8. ágúst 2023.
  12. Naustaskóli (1. apríl 2023). „Fréttabréf Naustaskóla 4. tbl. 15. árg 1. apríl 2023“. Naustaskóli. Sótt 8. ágúst 2023.
  13. Naustaskóli (september 2022). „Fréttabréf Naustaskóla 6. tbl. 14. árg. 1.september 2022“. Naustaskóli. Sótt 8. ágúst 2023.