Tómhyggja

(Endurbeint frá Níhílismi)

Tómhyggja eða níhilismi (áður nefnd alneitunarstefna) er stefna í heimspeki, sem staðhæfir að alheimurinn, einkum þó tilvist mannskepnunnar, sé án einhvers raunverulegs gildis, markmiðs, sannleika eða ómissandi tilgangs.

Tómhyggjumenn eða níhilistar trúa ýmist öllum eða einhverju af eftirfarandi hugmyndum: það er engin rökbundin sönnun fyrir tilvist „æðri drottnara“ eða skapara, „sannur“ siðaboðskapur er með öllu óþekktur og einhver sönn siðferðisgildi sem ná eiga yfir alla veröldina eru ómöguleg; lífið hefur engan ósvikinn æðri „sannleika“ að geyma og engar gjörðir manna né dýra eru í raun „ákjósanlegri“ eða „betri“ en einhverjar aðrar.

Orðið níhilismi er dregið af latneska fornafninu nihil sem þýðir einfaldlega „ekkert“. Hugtakið varð fyrst fleygt eftir að það kom fyrir í skáldsögu rússneska rithöfundarins Ivans Turgenévs (1818–1883), Feður og synir. Hin svonefnda Nihilistahreyfing í Rússlandi tók orðið upp á sína arma og gerði að stefnu sinni en Nihilistahreyfingin lýsti sig andsnúna öllu valdi og varð mjög umdeild í Rússlandi á nítjándu öld.