Monte Carlo er mjög ríkt hverfi í borgríkinu Mónakó, þekkt fyrir spilavíti sín, glamúr, og það að frægt fólk virðist una sér vel þar. Um 30.000 íbúar eru þar með fasta búsetu (áætlað 1990).

Mónakó spilavítið í Monte Carlo.
Monte Carlo hverfið.

Monte Carlo hýsir stærstan hluta af Circuit de Monaco kappakstursbrautinni, en á henni fer Monaco Grand Prix keppnin fram í Formúlu-1 kappakstri. Einnig fara heimsmeistarakeppnir í hnefaleikum (Monte Carlo meistararnir), tískusýningar og ýmsir aðrir viðburðir fram í Monte Carlo. Áratugum saman hafa konungsfólk, kvikmyndastjörnur og meðalmenni heimsótt Monte Carlo.

Spilavítin í Monte Carlo eru víðfræg og laða að ótal ferðamenn á hverju ári. Innan spilavítisins er Grand Théâtre de Monte Carlo óperu- og ballethúsið, og höfuðstöðvar Ballets de Monte Carlo. Árið 1861 var gefið 50 ára leyfi til þess að reka spilasali með fjárhættuspilum til einstaklinga. Síðan 1898 hefur leyfið verið starfrækt af Société des Bains de Mer sem er fyrirtæki, en ríkisstjórn Mónakó á nú ráðandi hlut í því. Fyrirtækið á einnig helstu hótelin og barina sem þjóna ferðaþjónustu. Engir skattar eru á einstaklingum í Mónakó, en þeim er meinaður aðgangur að spilavítum.

Árið 1873 gerði Joseph Jagger spilavítið frægt með því að „brjóta bankann“. Hann fann og hagnýtti sér galla í einu af rúllettuhjólum spilavítisins. Tæknilega séð var bankinn í þessu tilviki það fé sem borðið hafði í höndum croupiersins, spilastjórans. Samkvæmt grein í The Times seint á 19. öld var hægt að brjóta bankann oft með þessari aðferð. Lagið „The Man that Broke the Bank at Monte Carlo“ frá árinu 1892 er líklega samið til höfuðs Charles Wells sem braut bankann margoft í tveimur fyrri ferðum sínum til Monte Carlo, af þremur.

Breski njósnarinn James Bond, söguhetjan úr skáldsögum Ians Fleming og kvikmyndum byggðum á þeim, stundaði spilavítið þar mikið. Hverfið heitir eftir Karl III, Prins af Mónakó.