Mennt
Mennt ― Samstarfsvettvangur atvinnulífs og skóla voru félagasamtök sem störfuðu á Íslandi 1999-2007. Stærstu aðildarfélögin voru starfsmenntaskólarnir, háskólarnir og aðilar vinnumarkaðarins, þ.e. Samtök atvinnulífsins (SA) og Alþýðusamband Íslands (ASÍ).
Markmið Menntar var að styðja við þróun starfmenntunar með samstarfsverkefnum, upplýsingamiðlun, skipulagningu viðburða og þátttöku í Evrópuverkefnum.
Mennt skipulagði stóra árlega viðburði, fyrir hönd menntamálaráðuneytisins, eins og Viku símenntunar og ráðstefnur um notkun upplýsingatækni í skólastarfi. Mennt rak upplýsingamiðlun um óformlegt nám, mennt.is, sem var langt á undan sinni samtíð, auk þess sem Mennt hafði umsjón með Evrópusamstarfi á sviði starfsmenntunar í samstarfi við Landskrifstofu Leonardo da Vinci, starfsmenntaáætlunar ESB.