Margrethe Angel eða maddama Angel, fædd Margrethe Andersdatter Ravn (f. um 1749 - d. 1807) var dönsk kona sem rak gistihús og fyrsta veitingahúsið í Reykjavík.

Líf og störf

breyta

Lítið er vitað um fyrstu ár Margrethe Angel og er hennar fyrst getið í kirkjubókum í Reykjavík árið 1788 þegar hún giftist Rasmus Angel, norskum verslunarþjóni og ekkjumanni. Hjónabandið varði ekki nema í eitt ár en þá lést Rasmus og höfðu þau þá eignast einn son.

Við fráfall Rasmusar þurfti Margrethe að sjá sér framborða og sótt hún árið 1789 um leyfi til að reka veitingastað. Var það fyrsta veitingaleyfið sem gefið var út í Reykjavík. Hvort hún hóf þegar veitingarekstur og þá hvar er ekki ljóst, en árið 1791 keypti hún hús sem tilheyrt hafði Innréttingunum og varð síðar Aðalstræti 16.

Maddama Angel, eins og hún var almennt kölluð af Reykvíkingum, þurfti að hafa allar klær úti til að afla hráefna fyrir veitingastað sinn. Hún hélt kýr og útbjó matjurtargarð þar sem ræktaðar voru kartöflur, rófur og aðrir fágætari garðávextir. Fyrir ræktunartilraunir þessar fékk hún viðurkenningu frá Danska landbúnaðarfélaginu. Einnig bauð hún upp á gróft brauð sem hún bakaði í eigin bakaraofni og taldi Ólafur Stephensen stiftamtmaður ástæðu til að senda fyrirspurn til yfirboðara sinna um hvort slíkt væri löglegt í ljósi þess að í bænum væri starfandi bakarí.

Árið 1796 hætti Margrethe rekstrinum og tók landsstjórnin þá húsnæðið fyrst á leigu en síðar til kaups og gerði að embættisbústað landfógeta. Fluttist hún til Kaupmannahafnar ásamt Christine, dóttur Rasmusar af fyrra hjónabandi sem hún hafði fóstrað. Bjó hún þar við kröpp kjör til æviloka.

Tilvísanir og heimildir

breyta
  • https://vertshusid.wordpress.com/aevisaga-margrethe/
  • Sigurveig Jónsdóttir & Helga Guðrún Johnson (2014). Það er kominn gestur: saga ferðaþjónustu á Íslandi. Samtök ferðaþjónustunnar. ISBN 978-9935-10-057-3.