Marens eða marengs er kaka eða ábætisréttur gerður úr eggjahvítum sem þeyttar eru með sykri og síðan oft bakaðar í ofni. Stundum er svolitlum vínsteini eða ediki þeytt saman við eggjahvíturnar til að gera marensinn stöðugri og hann er einnig stundum bragðbættur á ýmsan hátt eða litaður.

Lítil marenskaka með rjóma.

Marensgerð

breyta

Þegar marens er þeyttur er mikilvægt að engin fita berist í hvíturnar því þá þeytast þær ekki nægilega vel og því þarf að gæta þess að engin rauða fylgi með hvítunum þegar eggin eru aðskilin. Hvíturnar eru svo þeyttar með sykri þar til froðan myndar stífa toppa sem halda lögun og síðan er marensinn mótaður á ýmsan hátt, stundum með því að sprauta honum úr rjómasprautu eða dreifa honum á hring sem teiknaður hefur verið á bökunarpappír og baka hann síðan. Úr honum eru oft gerðir tertubotnar eða litlar marenskökur og hann er líka oft settur ofan á ávexti, bökufyllingar eða annað sem síðan er bakað og borið fram sem ábætisréttur. Ein frægasti marensrétturinn er pavlova, þar sem svolítilli maíssterkju og ediki er þeytt saman við marensinn og síðan bökuð kringlótt kaka sem ávöxtum eða berjum er hrúgað á.

Til eru mismunandi gerðir af marens. Venjulegur eða franskur marens er þannig að hvíturnar eru einfaldlega þeyttar og sykrinum síðan þeytt saman við smátt og smátt. Svissneskur marens er þeyttur í skál sem höfð ef yfir potti með heitu vatni þar til eggjahvítunar fara að hitna og síðan er skálin tekin af hitanum og þeytt áfram þar til marensinn kólnar og myndar stífa toppa. Ítalskur marens er gerður þannig að sykur og vatn er soðið saman í síróp sem er svo þeytt saman við eggjahvíturnar þannig að þær „soðna“ í hitanum. Hann er mun stöðugri en hinar tegundirnar og er oft ekki bakaður.

Hlutfall eggjahvíta og sykurs er yfirleitt 50 g af sykri á móti hverri eggjahvítu en það fer þó eftir því hvernig á að nota marensinn

Ekki er víst hvar marens er upprunnin en heitið meringue kemur fyrst fyrir í franskri matreiðslubók frá 1692. Marenskökur hafa verið þekktar á Íslandi frá því á 19. öld en urðu afar vinsælar á 7. og 8. áratug 20. aldar, þegar framboð á eggjum jókst til muna og þau urðu ekki lengur munaðarvara.

Heimildir

breyta
  • „How to make meringues“. Delia Online, skoðað 29. september 2012.
  • „Egg White Meringue - How to make perfect meringue“. www.whatscookingamerica.net, skoðað 29. september 2012.