Málsóknarumboð
Um málsóknarumboð eru engin almenn lög, heldur fáein lagaákvæði, þar sem ráðgert er að því megi eða skuli beita við ákveðnar aðstæður, en að öðru leyti helgast heimildir til notkunar málsóknarumboðs af fremur þröngum venjum, sem eru yfirleitt bundnar við ákveðin svið. Þá eru engar almennra reglur í löggjöf um heimildir málsóknarumboðsmanns til aðgerða fyrir umbjóðanda sinn.[1]
Dæmi um tilvik, þar sem málsóknarumboð styðst beinlínis við fyrirmæli laga, verða einkum fundin á vettvangi vinnulöggjafar, en af því sviði má benda á reglur umboð stéttarfélaga og félag atvinnurekanda til að reka mál aðildarfélaga sinna eða félagsmanna fyrir Félagsdómi, sbr. 45. gr. laga nr. 80/1938, svo og sambærilegar reglur í 26. og 27. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Í þessum tilvikum verður að ætla að tilgangur umboðsins sé að tryggja að viðkomandi samtök gæti hagsmuna allra félagsmanna sinna í senn. Fáein önnur dæmi eru til af lagaákvæðum, þar sem kveðið er á um málsóknarumboð, en lítið reynir á þau í framkvæmd. Í því sambandi má benda á reglur í 13. gr. siglingalaga nr. 34/1985, þar sem mælt er fyrir um málsóknarumboð skipstjóra til að gæta hagsmuna útgerðar skips í málum út af atriðum, sem varða það.[2]
Engar almennar takmarkanir eru á því hverjum verði veitt málsóknarumboð, svigrúm er til þess háð sakarefninu hverju sinni. Í sumum tilvikum er lögákveðið að málsóknarumboð verði veitt tilteknum umboðsmanni í vissum tegundum mála, en þegar heimildir til að beita málsóknarumboði helgast af venjum virðist misjafnt hvort þær eru bundnar við ákveðna umboðsmenn eða ekki.[1]
Sá grundvallarmunur er á málflutninsumboði og málsóknarumboði að málflutningsumboðsmaður kemur fram af hálfu aðila, sem er nafngreindur í máli og er ekki kenndur við umboðsmann sinn í heiti máls eða á annan hátt, en á hinn bóginn ríkir sú venja að annaðhvort komi málsóknarumboðsmaður fram í eigin nafni í máli án þess að umbjóðandi hans sé nokkru sinni nafngreindur eða mál hefur heiti, sem ber með sér að málsóknarumboðsmaður reki það "fyrir hönd" eða "vegna" nafngreinds umbjóðanda síns. Í tilfelli málsóknarumboða er því staðan sú að umboðsmaðurinn er samkenndur við umjóðanda sinn í ríkara mæli en þegar málflutningsumboði er beitt.[1]
Sögulegt samhengi
breytaÍ réttarsögulegu samhengi má benda á að málsóknarumboð fór að tíðkast erlensi á fyrri öldum til að koma fram hjá reglum um málflutningsumboð og þeim takmörkunum, sem leiddu af þeim reglum um hverjum yrði veitt umboð til að flytja mál. Málsóknarumboð hefur þannig lengi haft á sér þann blæ að það sé óvelkomin leið til að víkjast undan reglum um einkarétt lögmanna til að taka að sér málflutning fyrir aðra. Hér á landi hefur ekki verið amast við málsóknarumboði í sama mæli og í sumum öðrum löndum, en í einhverjum tilfellum hefur verið reynt að koma í veg fyrir notkun þess erlendis með lögum. Hérlendis hefur málsóknarumboð verið umborið í framkvæmd í nokkrum mæli, utan lögboðinna tilvika. Þessi bakgrunnur málsóknarumboða veldur þó þeirri tilhneigingu í framkvæmd að heimildir til að beita málsóknarumboði verði skýrðar þröngt.[1]