Loftvog (loftmælir [1], loftþungamælir [2] eða barómeter) er tæki sem er notað við veðurathuganir til að mæla loftþrýsting; loftvogin visar á veður eða er notuð til veðursagna. Elsta gerð loftvogar er kvikasilfursloftvog, sem er í meginatriðum glerpípa, opin í annan endann, fyllt með kvikasilfri, sem komið er fyrir á hvolfi í skál með kvikasilfri. Síritandi loftvogir veðurstofa rita loftþrýstinginn í sífellu á sívalning, sem venjulega snýst fyrir sigurverki eina umferð á viku.

Einföld mynd sem sýnir loftvog, neðst er skál með kvikasilfri

Á kvikasilfursloftvog sjást breytingar í loftþrýstingi sem hæðarbreytingar á kvikasilfurssúlunni og eru mældar í millimetrum kvikasilfurs, táknaðar með mmHg, en sú eining hefur hlotið nafni torr. Loftþrýstingur, sem heldur kvikasilfurssúlu í 760 mm hæð frá yfirborðinu í skálinni, samsvarar einni loftþyngd. Mælingar með loftvog eru mjög háðar hæð athugunarstaðar yfir sjávarmáli og hita. Til að samræma veðurathuganir er því loftþrýstingur reiknaður eins og loftvogin stæði við sjávarmál og gefinn þannig í veðurskeytum. Algengasta mælieining loftþrýstings er hektópaskal.

Í dósarloftvog er notast við þenslubreytingar málmdósar til að mæla loftþrýsing, en í rafeindaloftvog er notaður þenslunemi til að mæla loftþrýsting. Loftvog með húslagi, og sem venjulega er með myndum eða mannslíkönum sem koma út í dyrnar til skiptis eftir mismunandi loftþyngd, nefnist veðurhús.

Saga loftþrýstingsmælinga

breyta

Allt frá fornöld voru notaðar pumpur og dælur en menn töldu eins og Aristoteles að þær stöfuðu af því að náttúran væri hrædd við lofttæmi (lat. horror vacui). Árið 1640 komst Galileo Galilei að því að sogdæla gat ekki dælt vatni hærra en um 10 m. Evangelista Torricelli sem hafði verið lærisveinn Galileós komst að því árið 1643 að eins og vatn gæti ekki komist hærra en um 10 m þá gæti kvikasilfur sem er 13,6 sinnum þyngra ekki komist upp lengra en 1/13 af 10 m eða um 760 mm. Til þess að rannsaka þetta fyllti Torricelli 1 m langt glerrör með kvikasilfri og bræddi saman öðru megin. Hann hélt fingri yfir opna enda rörsins og hristi það og setti svo opna endann í opið ílát með kvikasilfri og þegar hann sleppti fingrinum þá féll kvikasifrið í glerpípunni svo mikið að það það var 760 mm hærra í glerpípunni en kvikasilfrið í opna ílátinu sem það stóð í. Torricelli dró þá ályktun að loftin hefði vegna þyngdar sinnar þrýsting sem hægt væri að mæla með þeirri hæð sem loft gæti þrýst kvikasilfri upp í í lofttæmdu herbergi. Um svipað leyti var þýskur eðlisfræðingur Otto von Guericke að gera svipaðar tilraunir en hann notaði vatn til að sýna útþenslu við misjafnan loftþunga. Loftvog Guerickes var yfir tíu metra há pípa, hol að innan og með vatnsgeymi að neðan, gerð úr messing að neðanverðu en úr gleri að ofan. Það þótti undur og galdrar að hin tíu metra háa súla steig þegar gott veður kom á eftir en féll á undan vondu veðri.

Síðan hafa verið gerðar annars konar loftvogir meðal annars úr vafningsstreng úr málmi. Slíkar loftvogir eru gerðar úr blikkdósum, en mismunandi þensla loksins á dósinni, stýrir vísi, sem segir til um loftþyngdina, eins og vísir á úri.

Tengt efni

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. „Orðabók Háskólans“. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. mars 2016. Sótt 17. september 2008.
  2. Fjölnir 1835

Tenglar

breyta