Ljósop
Þessi grein þarfnast hreingerningar svo hún hæfi betur sem grein hér á Wikipediu. |
Í ljósmyndun er talað um ljósop á linsum. Einfalda skýringin á því hvað ljósop sé er að það sé stærð opsins sem ljósið fellur í gegnum í linsunni. Stærð ljósops er stillanleg. Breyting á stærð ljósops er ein þriggja þátta sem hafa áhrif á lýsingu myndar. Hinir þættirnir eru lokuhraði og ljósnæmi.
Ljósop er ekki föst stærð í millimetrum heldur er ákveðið hlutfall miðað við brennivídd fræðilegrar linsu. Hér er talað um fræðilega linsu vegna þess að fjöldi glerja, gerð þeirra og yfirborðsmeðhöndlun getur raskað því hlutfalli. Linsuframleiðendur leitast við að miða ákveðið ljósop við þá birtu sem fellur í gegnum linsuna á myndflöguna eða filmuna. Þess vegna er oft brugðið út frá fræðilegum stærðum en birtumagn á að vera það sama miðað við sama ljósop í mismunandi linsum að öðru jöfnu. Ljósop dæmigerðrar linsu eru valin þannig að við hvert ljósop upp tvöfaldaðist ljósmagnið sem fellur á myndflöguna. Slík breyting er kölluð eitt stopp í ljósmyndun.
Dæmigerðar stærðir ljósopa eru 2,8 4 5,6 8 11 16 22 32. Hærri tala þýðir minna ljósop.
Áður fyrr voru lokuhraðar einnig tilgreindir þannig að tíminn tvöfaldaðist eða helmingaðist milli stillinga. Hraðinn var tilgreindur sem hlutur úr sekúndu. Hraðinn 60 var þannig 1/60 úr sekúndu. Næsti hraði var 1/125 og síðan 1/250, 1/500 1/1000 þ.e.a.s. alltaf tvöföldun/helmingun á milli stillinga sem jafngildir einu stoppi. Dæmi: Mynd sem var rétt lýst með hraðanum 1/500 og ljósopi 8 var líka rétt lýst ef hraðinn var aukinn í 1/1000 og ljósopið stækkað í 5,6.
Mest ljós kemst í gegn með stillingunni 2,8 en minnst á stillingunni 32. Til eru linsur með enn stærra ljósopi þ.e. enn lægri tölur. Linsur með mjög stóru ljósopi er kallaðar bjartar linsur í daglegu tali. Linsur með breytilegri brennivídd þ.e. zoom linsur geta verið með breytilegu minnsta ljósopi eftir þeirri brennivídd sem valin er.
Stærð ljósops hefur áhrif á hvað er í fókus í myndinni. Þegar ljósop er lítið (há tala) næst bæði það sem er nálægt myndavélinni og það sem er fjarri henni í fókus. Svæðið sem er í ásættanlegum fókus er kallað fókusdýpt. Að jafnaði er 1/3 fókusdýptarinnar fyrir framan punktinn sem fjarlægðarstillingin er sett á og 2/3 fyrir aftan.
Í landslagsmyndum er oftast leitast við að hafa lítið ljósop þ.e. djúpann fókus. Á sumum nýjum myndavélum er stilling sem auðkennd er með táknmynd fjalls. Þegar hún er valin leitast vélin við að hafa lítið ljósop. Önnur táknmynd sýnir mynd af andliti og velur þá vélin grunna fókusdýpt þ.e. stórt ljósop. Brennivídd linsu hefur líka áhrif á fókusdýpt.
Þegar valin er sjálfvirk stilling sem leitast við að hafa ljósopið lítið eykst þörfin fyrir að halda myndavélinni stöðugri. Þar sem sama ljósmagn verður að falla á myndflöguna leitast myndavélin við að auka lýsingartímann. Hætt er við að minniháttar hreyfingar handarinnar þegar smellt er af komi fram sem óskírleiki ef ekki er stuðst við eitthvað.
Sveigja ljóssins og bylgjulengd gera það að verkum að minnsta ljósopið er ekki það sem skapar skarpasta fókusinn. Þumalfingursregla segir að skýrasti fókusinn verði að jafnaði þegar stillt er á ljósop í miðjum skala linsunnar.