Ljónið
Ljónið (latína: Leo) er stjörnumerki í dýrahringnum, milli Krabbans í vestri og Meyjunnar í austri. Það er á norðurhimni. Forn-Grikkir túlkuðu ljónið sem Nemeuljónið sem Herakles sigraði. Það er eitt af 48 stjörnumerkjum fornaldar sem Kládíus Ptólmæos lýsti. Makki og kambur Ljónsins mynda stjörnusamstæðu sem heitir Sigðin og líkist öfugu spurningarmerki.
Í stjörnumerkinu eru margar bjartar stjörnur sem gera það áberandi á himninum. Meðal þeirra eru Regúlus (stjörnupar með bláhvítu meginraðstirni), Denebóla (bláhvítt meginraðstirni), Algieba (tvístirni) og Zosma (bláhvítt meginraðstirni).