Les Marais du temps
Les Marais du temps (Íslenska Mýri fortíðarinnar) er önnur bókin í ritröðinni Sérstakt ævintýri um Sval... (franska Série Le Spirou de…) þar sem ýmsir listamenn fá að spreyta sig á að semja ævintýri um Sval og Val, sem þó teljast ekki hluti hinnar opinberu ritraðar. Bókin kom út árið 2007. Höfundur og teiknari sögunnar er Frank Le Gall. Bókin hefur enn ekki komið út á íslensku.
Söguþráður
breytaSprenging á sér stað í kjallara veitingahúss í Les Marais-hverfinu (Mýrinni) í Parísarborg. Í rústunum kemur í ljós bók á dulmáli með skilaboðum um að koma henni til Sveppagreifans. Bókin hefur að geyma skilaboð frá Zorglúbb sem farið hafði aftur í tímann, en er fastur í Parísarborg árið 1865.
Svalur, Valur og Sveppagreifinn ákveða að halda aftur í tímann til að bjarga fjandvini sínum. Þeir finna tímavél Zorglúbbs í neðanjarðarhvelfingu undir Concorde-torgi og hverfa til ársins 1865. Þar tekur Zorglúbb á móti þeim og ævintýrið virðist ætla að fá skjóta lausn, þegar Pési stekkur óvænt í gegnum tímagluggann og skilur félaga sína eftir hinu megin.
Sveppagreifinn uppgötvar skringilega sveppategund sem býr yfir gríðarlega mikilli orku og þeir ákveða að freista þess að komast aftur til framtíðar með tilstilli þeirra. Í ljós kemur að Zorglúbb er með glæpaforingjann Crève-Bedaine og hyski hans á hælunum. Crève-Bedaine segir að Zorglúbb skuldi sér stórfé og hyggur á hefndir, en hann er vopnaður tæki sem sendir frá sér zor-geisla.
Á sama tíma á 21. öldinni tekst Pésa að hafa upp á félaga Sveppagreifans og barnungum vini hans og lokka þá með sér að tímavélinni. Þeim tekst að koma henni í gang og ná að bjarga félögunum til baka á síðustu stundu áður en Crève-Bedaine kemur þeim fyrir kattarnef.
Á setri Sveppagreifans fagnar Zorglúbb sigri. Tilgangur tímaferðalagsins var að kaupa verðmætar byggingarlóðir í Les Marais-hverfinu. En þegar betur er að gáð reynast kaupsamningarnir auðir, því ekki er hægt að breyta atburðum fortíðarinnar.
Fróðleiksmolar
breyta- Í sögunni tala allar persónur frá nítjándu öldinni mállýsku sem minnir á þann tíma. Hún er torskilin við lestur og er orðalisti birtur aftast í bókinni.
- Valur hyggst verða ríkur með því að fá franska listmálarann Manet til að mála af sér mynd. Hún gufar upp í sögulok líkt og samningar Zorglúbbs.