Langanesganga eða Friðarganga gegn fyrirhuguðum hernaðarframkvæmdum á Norðausturlandi var fundur og mótmælaganga gegn ratstjárstöðvabyggingum Bandaríkjahers sem haldin var 7. júlí árið 1984 í nafni Friðarsamtaka kvenna á Þórshöfn. Tildrögin voru fregnir af áhuga Bandaríkjamanna á byggingu ratsjárstöðvar á Gunnólfsvíkurfjalli.

Skipulag og dagskrá

breyta

Safnast var saman við flugvöllinn á Langanesi þar sem Dagný Marínósdóttir húsfreyja á Sauðanesi flutti ávarp. Því næst var gengið að Gunnlaugsá þar sem haldinn var fundur og Sveinn Rúnar Hauksson læknir sagði frá Friðarhreyfingu Þingeyinga. Þessu næst var gengið inn á Þórshöfn þar sem haldinn var útifundur á íþróttavelli staðarins. Stefanía Þorgrímsdóttir frá Garði í Mývatnssveit hélt ræðu og Bergþóra Árnadóttir tók lagið, auk annarra dagskráratriða.

Yfirskrift göngunnar var Gegn fyrirhuguðum hernaðarframkvæmdum á Norðurlandi. Friðlýsing Þingeyjarsýslu og kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd. Um 200 göngumenn tóku þátt í aðgerðinni.